Mannauðsstjórar veita stjórnendum ráðgjöf

Það var þægileg og létt stemmning í Hús Atvinnulífsins 17. nóvember síðastliðinn þar sem fjallað var um málefni mannauðsstjórnunar með áherslu á stöðu hennar í dag. Þetta var þriðji fundur vetrarins í fundarröðinni Menntun og mannauður.

Fyrirlesarar voru Arney Einarsdóttir lektor við Viðskiptafræðideild Háskólans í Reykjavík og forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar í mannauðsstjórnun og Hafsteinn Bragason mannauðsstjóri Íslandsbanka.

Arney steig fyrst í pontu og kynnti fyrir fundargestum helstu niðurstöður Cranet mannauðsrannsókna 2015, en þær ganga í grunninnn út á að spyrja mannauðsstjóra og forsvarsmenn mannauðsmála hver verkefni þeirra og áherslur eru hverju sinni samanborið við þróunina frá fyrri árum.

Hjá Arneyju komu fram margar áhugaverðar niðurstöður og meðal annars fjallaði hún um stöðu mannauðstjórnunar í skipulagsheildinni. Þar velti hún upp stöðu mannauðsstjóra gagnvart framkvæmdastjórn, hvert hlutverk hans í þátttöku á mótun heildarstefnu fyrirtækisins er og hver helstu verkefni mannauðsstjórans eru í dag árið 2015. Samkvæmt niðurstöðum Cranet sitja færri mannauðsstjórar í framkvæmdastjórn eða sambærilegu æðsta teymi en fyrir þremur árum frá síðustu gagnaöflun, og er það hlutfall minnst af öllum Norðurlöndunum. Arney taldi að mögulega lægi skýringin í því að eftir því sem fyrirtæki stækka þeim mun meiri tilhneiging er að setja mannauðsstjórnun neðar í skipuritið.

Þegar kemur að þátttöku mannauðsstjórans í mótun á heildarstefnu fyrirtækisins er hún svipuð milli ára og samanborið við hin Norðulöndin. Einna helst vakti það athygli Arneyjar að þátttaka mannauðsstjórans í mótun heildarstefnu fyrirtækis er hvað minnst í fyrirtækjum tengdum frumvinnslu, iðnaði og orkumálum.

Arney fór yfir áherslur í starfsþróun og endurgjöf og þar kom í ljós að fjárfesting í þjálfun og fræðslu hefur aukist síðustu ár og meiri tími fer í þjálfun og fræðslu stjórnenda nú en áður á meðan því er öfugt farið meðal ófaglærðra. Arney hvatti menn til að íhuga þetta. Það kom einnig fram að í starfsgreinum er tengjast frumvinnslu, iðnaði og orkumálum, eru fæstir í starfsnámi á háskólastigi eða um 21% samanborið við um 50% í geirum verslunar og þjónustu, fjármálageira, ferðaþjónustu og opinberri stjórnsýslu.

Helstu verkefni mannauðsstjóran samkvæmt niðurstöðum Cranet eru ráðgjöf við stjórnendur og stefnumörkun.

Hafsteinn Bragason var með líflegt innlegg um helstu verkefni hans í starfi mannauðsstjóra Íslandsbanka og eru sum verkefni meira áberandi en önnur. Þar má nefna stefnumörkun, frammistöðustjórnun, hvatning, starfsþróunar- og fræðslumál, breytingastjórnun, launa- og kjaramál og síðast en ekki síst heilsa og velferð starfsmanna. Það sem þó stendur hvað mest upp úr í verkefnum Hafsteins er ráðgjöf til stjórnenda en það er í takti við niðurstöður Cranet rannsóknarinnar. Samkvæmt henni er ráðgjöf til stjórnenda mest áberandi í dag í starfi mannauðsstjóra og hefur aukist verulega síðustu árin. 

Hafsteinn endaði mál sitt á því að fara yfir ýmsa eiginleika sem mannauðstjóri þarf að búa yfir til að geta sinnt starfi sínu vel. Með hag fyrirtækisins að leiðarljósi í öllum ákvörðunum og stefnumótunum telur Hafsteinn góða samskiptahæfni vera helsta styrk mannauðsstjórans, auk þess sem hann telur mikilvægt að geta einblínt á styrkleika hvers og eins starfsmanns.