Málefni sjávarútvegsins mikilvæg við mótun sameiginlegrar atvinnustefnu

Stefán Friðriksson, framkvæmdastjóri Ísfélags Vestmannaeyja, var meðal frummælenda á opnum fundi SA um atvinnumálin í Vestmannaeyjum. Stefán ræddi þar  m.a. um mótun sameiginlegrar atvinnustefnu með ASÍ sem ætlunin er að leggja fyrir stjórnmálaflokkana fyrir kosningar og hvað þurfi til að sú stefna geti gengið upp. Stefán sagðist gera þá kröfu að í upphafi yrði sérstaklega rætt við ASÍ um atvinnustefnu í sjávarútveginum.

"Samstaða ASÍ og SA um atvinnustefnu í sjávarútvegi þar sem í fyrirrúmi væri aukin arðsemi og meiri hagvöxtur og þar með betri og verðmætari störf er í mínum huga prófsteinn á hvort hægt sé að ná saman um sameiginlega og skynsamlega atvinnustefnu í öðrum greinum atvinnulífsins."

Yfirskrift fundar SA var Fleiri störf - betri störf, en Stefán sagði að í stuttu máli megi segja að fjárfestingar skapi störfin. Til að störf verði varanleg og verðmæt þurfi fjárfestingarnar að vera góðar og skila arði. Stöðugleiki og hagkerfi án hafta skipti miklu máli í því sambandi.

Samvinna og brostnar forsendur
Stefán rifjaði í erindi sínu m.a. upp samvinnu aðila vinnumarkaðarins á undanförnum árum og undirstrikaði að samstaða væri mjög mikilvæg.

"Það hefur vakið eftirtekt mína hversu mikil samstaðan virðist vera milli SA og ASÍ undanfarin ár. Núna síðast birtist samstaðan í því samkomulagi sem ASÍ og SA gerðu 21. janúar sl. um að segja ekki upp kjarasamningunum heldur stytta gildistíma þeirra til 30. nóvember á þessu ári. Það er gert þrátt fyrir að mikilvægar forsendur um stöðugleika séu brostnar.

Í samkomulaginu felst m.a. að samtökin ætla að reyna að ná samstöðu um atvinnustefnu. Ég geri ráð fyrir að vinnan við gerð atvinnustefnunnar sé mikilvægur liður í undirbúningi fyrir næstu kjarasamninga og í samkomulagi ASÍ og SA segir m.a. að ef samstaða náist um atvinnustefnuna þá verði hún borin undir stjórnmálaflokkana fyrir kosningar.

Miðað við samskipti forystumanna ríkisstjórnarinnar og t.d. forseta ASÍ undanfarnar vikur getur maður þó leyft sér að efast um að samstaða náist um efnislegan skilning á stefnunni milli stjórnmálamannanna og forystumanna okkar."

Stefán ræddi einnig um samstöðuleysi.

"Mig langar að rifja upp heimsókn forystumanna SA til Vestmannaeyja veturinn 2010. Þá var staðan þannig að verkamenn í fiskimjölsverksmiðjunum höfðu boðað verkfall á miðri loðnuvertíðinni og yfir vofði gríðarlegur tekjumissir hjá fyrirtækjunum. Boðskapurinn í ferð forystumannanna var samstaða. Samstaða um að gefa ekki eftir gagnvart verkfallshótuninni þrátt fyrir að ágætlega áraði hjá sjávarútvegsfélögum.

Samstaðan skipti öllu máli vegna þess að miklar launahækkanir sem gætu fylgt í kjölfar hækkana í bræðslunum myndu hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir rekstur fjölmargra fyrirtækja. Framhaldið þekkja svo allir. Verkamenn í verksmiðjunum hættu við að fara í verkfall og sýndu þar mikla ábyrgð.

Ári síðar eða vorið 2011 voru kjarasamningar gerðir og laun hækkuð að margra mati talsvert meira en efni stóðu til. Samningarnir voru t.a.m. sagðir ansi framhlaðnir og það er mér minnistætt að aðalhagfræðingur Seðlabankans spurði á fundi úti í bæ hvernig þeim sem að samningunum stóðu hefði eiginlega dottið í hug að semja um svo miklar launahækkanir.

Í aðdraganda samninganna gerðu SA þá kröfu um að fyrir lægi hvaða breytingar á lögum um stjórn fiskveiða yrðu gerðar og að í þeim breytingum fælist að tryggður yrði góður rekstragrundvöllur fyrir útgerðina í landinu eins og reyndar er kveðið skýrt á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Flestum þeim sem eru í sjávarútvegi er í fersku minni að þegar á reyndi þá hlupust félagar okkar í SA undan merkjum og skildu útgerðarmenn eina eftir í baráttunni gegn fjandsamlegum aðgerðum stjórnvalda gegn útgerðinni í landinu.

Lögin um veiðigjöldin eru í raun aðför gegn lífskjörunum í landinu og þá sérstaklega í sjávarbyggðunum eins og fram kom í fjölmörgum umsögnum um frumvörpin. Og nú liggur fyrir enn eitt frumvarpið um stjórn fiskveiða sem er sama marki brennt og lögin um veiðigjöldin, þ.e. um er að ræða árás stjórnvalda á lífskjör þjóðarinnar.

Hvaða réttlæti og sanngirni er í þessu fyrir fólkið sem býr í þessu landi?"

Stefán undirstrikaði að útgerðarfyrirtæki landsins væru ofurskattlögð en þar fyrir utan séu tekjur þeirra skertar með því að færa talsverðar aflaheimildir í hendur ríkisins og þar með til stjórnmálamanna sem nýti sér þær til að deila og drottna.

Rætt um verkbann

Stefán rifjaði upp umræðuna um hugsanlegt verkbann útgerðarmanna vegna kjaradeilunnar við sjómenn.

 "Útgerðarmenn ákváðu á aðalfundi sínum sl. haust að kjósa um boðun verkbanns til að knýja á um lausn kjaradeilu sinnar við sjómenn. Það var erfið og umdeild ákvörðun en þótti á þeim tíma óhjákvæmileg vegna þess að forsendur fyrir hlutaskiptakerfinu voru í raun brostnar eftir að lögin um veiðigjöld tóku gildi og ríkissjóður fór að taka stóran hluta aflaverðmætisins til sín í formi veiðigjalds.

Þegar á reyndi var síðan ákveðið að fresta atkvæðagreiðslunni. Á sama tíma blæðir fjölmörgum útgerðarfyrirtækjum út og það er erfitt að horfa upp á að líklega muni þessi ákvörðun, að hætta við atkvæðagreiðslu um verkbann, kosta gjaldþrot útgerða í eigu félaga okkar og samstarfsmanna til margra ára.  Og þá veltir maður fyrir sér hvar samstaðan sé?

Þá liggur fyrir að ASÍ, fyrir hönd sinna félagsmanna í Sjómannasambandinu, hefur stefnt SA og LÍÚ fyrir félagsdóm vegna meintra brota á vinnulöggjöfinni þegar útifundurinn var á Austurvelli í byrjun júní. Það er í mínum huga ekki góð byrjun á samvinnunni við gerð atvinnustefnunnar og mun væntanlega ekki verða til þess að efla samstöðuna.

Í þessu ljósi geri ég þá kröfu til forystumanna okkar að ræða sérstaklega og í upphafi við ASÍ um atvinnustefnu í sjávarútveginum. Samstaða ASÍ og SA um atvinnustefnu í sjávarútvegi þar sem í fyrirrúmi væri aukin arðsemi og meiri hagvöxtur og þar með betri og verðmætari störf er í mínum huga prófsteinn á hvort hægt sé að ná saman um sameiginlega og skynsamlega atvinnustefnu í öðrum greinum atvinnulífsins."