Lykilatriði að ná efnahagslegum stöðugleika
Aðilar vinnumarkaðarins leggja höfuðáherslu á að ný ríkisstjórn leggi grunn að efnahagslegum stöðugleika. Það sé forsenda fyrir því að hægt sé að sækja fram. Þetta kemur fram í umfjöllun fréttastofu RÚV í dag. Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að forsenda blómlegs atvinnulífs sé efnahagslegur stöðugleiki. Stöðugra umhverfi þurfi í kring um ríkisfjármálin og stöðugleika um gengismálin og peningamálastjórn. "Og ekki síst stöðugleika á vinnumarkaði. Við væntum þess að ríkisstjórnin komi með okkur í þá vegferð," segir Þorsteinn.
Þorsteinn segir mikilvægt að ná verðbólgunni niður og framvinda næstu kjarasamninga skipti máli í þeim efnum. "Við höfum talað fyrir nýrri þjóðarsátt," segir hann. Besta leiðin til að tryggja varanlega aukinn kaupmátt á næstu árum sé með hófstilltum launahækkunum og stöðugu verðlagi.
Ennfremur segir Þorsteinn mikilvægt að örva fjárfestingu í landinu og breyta sköttum með hliðsjón af því. Endurskoða þurfi veiðileyfagjaldið svo það komi ekki harkalega niður á litlum og meðalstórum sjávarútvegsfyrirtækjum. Jafnframt þurfi að einfalda eftirlitskerfið með atvinnulífinu eins og kostur er, sérstaklega hvað varðar lítil og meðalstór fyrirtæki, en eftirlit fjölmargra aðila með þeim geti verið fyrirtækjunum íþyngjandi. Kerfið megi bæta án þess að slaka á kröfum til fyrirtækja.
Framkvæmdastjóri SA segir jákvætt að tækifærin til að sækja fram og vaxa séu fjölmörg í atvinnulífinu, t.d. í ferðaþjónustu, orkugeiranum og sjávarútvegi, en samvinnu þurfi til að okkur farnist vel og hægt verði að nýta tækifærin.
Sjá nánar: