Lykilatriði að auka fjárfestingar

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir í samtali við fréttavef Morgunblaðsins ýmsar vísbendingar um að betri tíð sé í vændum í atvinnulífinu og að störfum sé að fjölga. Hann tekur hins vegar fram að það sé nauðsynlegt að auka fjárfestingar. Þá sé mikilvægt að verðbólgan í lok árs fari ekki yfir 5%.

Á vef mbl.is 7. ágúst segir:

"Við erum auðvitað að vonast til að þetta sé að lagast. Það sem við óttumst er að fjárfestingarnar í atvinnulífinu séu ekki að gera sig eins og við vildum sjá," segir Vilhjálmur og bætir við að þörf sé aukinni fjárfestingu í útflutningsgreinunum.

Að undanförnu hefur aðallega verið fjárfest í ferðaþjónustu að sögn Vilhjálms en hann telur að eitthvað sé farið að rofa til varðandi byggingariðnaðinn, þá helst varðandi byggingu íbúðarhúsnæðis.

 "Fjárfesting almennt í atvinnulífinu, fyrir utan þetta, hefur verið í lágmarki ennþá. Það er eitt sem við sjáum sem algjört lykilatriði til þess að koma okkur á alvöru skriði upp úr kreppunni, en það er að fjárfestingar í atvinnulífinu - og þá fyrst og fremst í útflutningnum - fari að skila sér," segir Vilhjálmur.

Aðspurður segir Vilhjálmur að það fari eftir ýmsu hvort þau störf sem hafa orðið til í verslun og þjónustu í vor og sumar séu til frambúðar. Það hafi t.d. áhrif hvort ferðamannatíminn muni lengjast og hvernig gangi að fá ferðamenn til Íslands yfir vetrarmánuðina.

Neysludrifinn efnahagsbati

Vilhjálmur segist hafa áhyggjur af því að efnahagsbatinn virðist vera neysludrifinn frekar en framleiðsludrifinn. "Það vekur nokkrar áhyggjur um að þetta getið gengið til baka. Ef verðbólgan helst niðri og helst undir 5%, þá myndi ég halda að það væru meiri líkur á því að störfin héldust."

Eigi staðan að breytast til batnaðar þá verði menn að vinna ötullega á öllum vígstöðvum. Tryggja verði starfsskilyrði útflutningsfyrirtækjanna, laða að erlendar fjárfestingar og gera sjávarútveginum kleift að fjárfesta að einhverju ráði. Menn þurfi jafnframt að ljúka þeirri uppstokkun sem hafi átt sér stað í fjármálageiranum, svo að fyrirtæki viti hvar þau standi.

"Svo er auðvitað spurning um aðgang að fjármagni og erlendum fjármagnsmörkuðum. Það þarf að vinna í þessum á öllum frontum," segir Vilhjálmur.

Draga verður úr höftum

Hann óttast skaðleg áhrif gjaldeyrishafta og lokun fjármagnsmarkaða erlendis á fjárfesta. "Þegar upp er staðið hefur samkeppni og aflvaki okkar á fjármagnsmarkaði komið erlendis frá," segir Vilhjálmur.

"Það eru ýmsar jákvæðar vísbendingar," segir hann. Hins vegar vonist menn til að sjá hvort þessar vísbendingar skili sér í hærri hagvaxtartölum fyrir árið í heild.

"Þá fer hagur ríkissjóðs að vænkast mikið og þá getum við verið nokkuð viss um það að atvinnuleysið sé raunverulega á niðurleið og þessi fjölgun starfa, sem við sjáum sé eitthvað sem helst. Að þetta sé að staðfestast og séu ekki einhverjar bólur."