Loftslagstíðindi frá Kaupmannahöfn: Öll ágreiningsmál óleyst

Loftslagsráðstefna S.Þ. í Kaupmannahöfn er nú komin á 9. dag frá því hún hófst á mánudag í síðustu viku. Skemmst er frá því að segja að enn eru öll ágreiningsmál óleyst og óvíst hverjar verða niðurstöður samningaviðræðna. Ýmsar uppákomur hafa orðið.

Fyrir helgi var dreift drögum að niðurstöðu ráðstefnunnar þar sem gert var ráð fyrir að iðnríkin taki á sig lagalegar skuldbindingar um samdrátt útstreymis eftir 2012 samkvæmt Kyoto-bókuninni og að hún gildi áfram. Einnig fylgdu tillögur um markmið annarra ríkja sem ekki væru í formi lagalegra skuldbindinga og eins um aðgerðir til að bregðast við loftslagsbreytingum, styrkja tækniþróun og styrkingu innviða í þróunarríkjum. Þessar hugmyndir hlutu góð viðbrögð þróunarríkja en ESB, Japan og Rússland sögðu ekki rétt jafnvægi í tillögunum. Lagalegar skuldbindingar næðu aðeins til um 1/3 af útstreymi gróðurhúsalofttegunda í heiminum. Umhverfislegur ávinningur væri því óviss og ekki unnt að sætta sig við þetta sem drög að niðurstöðum. Japan og Rússland sögðu alveg skýrt að þau myndu ekki taka á sig skuldbindingar á þessum forsendum.

Um helgina héldu svo áfram óformlegar þreifingar þar sem sjónum var einkum beint að þeim atriðum sem iðnríkin töldu ófullnægjandi í fyrri tillögum. Það varð síðan til þess að þróunarríkin urðu mjög óánægð en eftir fundi með öllum sendinefndum í gær hófust viðræður að nýju. Settir voru af stað 4 nýir viðræðuhópar sem hverjum er stýrt af tveimur ráðherrum. Annar þeirra er úr hópi þróunarríkja og hinn frá iðnríkjum. Fundir þessara hópa munu standa í dag en ætlunin er að í kvöld ljúki störfum vinnuhópa ráðstefnunnar. Þeir eiga síðan að skila niðurstöðum á morgun sem verða til meðhöndlunar á ráðherrafundum og stefnt að samþykkt þeirra á leiðtogafundi á föstudag.

Enn er eins og áður segir óvíst hverjar niðurstöðurnar verða bæði hvað varðar efnislegt innihald og eins um lagalegt form þeirra. Mörg ríki vilja að niðurstaðan verði í formi bókunar sem getur farið til lagalegrar staðfestingar í aðildarríkjum. Aðrir sjá fyrir sér stefnuyfirlýsingu en stefnt verði að lagalega bindandi samkomulagi síðar.

Íslenska sendinefndin hefur ekki haft sig mikið í frammi á opnum fundum.  Unnið hefur verið að samkomulagi um reglur um landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis en óvíst um niðurstöður.

Fjölmargir hliðarfundir hafa verið haldnir, málstofur, kynningarfundir ríkja, samtaka, atvinnulífs, umhverfisverndarsamtaka og fleiri. Þekktir einstaklingar reyna að vekja athygli á sér og tengjast góðum málefnum. Í dag verða hér t.d. bæði Arnold Schwarzenegger og Al Gore með ávörp þar sem færri munu komast að en vilja.

Talið er að um 45 þúsund manns hafi sóst eftir skráningu á ráðstefnuna. Einungis er rými fyrir 15 þúsund manns á svæðinu og hefur því verið sett upp kvótakerfi fyrir þá sem eru að fylgjast með án þess að eiga beina aðild að samningaferlinu. Kvótarnir munu dragast hratt saman eftir því sem liður á vikuna.

Á morgun hefja þjóðarleiðtogar og ráðherrar að flytja ræður sínar og eru nú 183 ræður komnar á dagskrána. Þess er vænst að Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra Íslands, flyti sína ræðu þegar draga fer að miðnætti á fimmtudag. Ekki er að efa að margt verður merkilegt sagt í ræðum þessum öllum.

Í málstofu Evrópska fjárfestingarbankans (EIB) í gær kynnti Jakob S. Friðriksson, framkvæmdastjóri starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur, sögulega uppbyggingu á nýtingu jarðhita og verkefni sem Orkuveitan vinnur að til að binda koldíoxíð í jarðlögum.

Á degi atvinnulífsins sem haldinn var á föstudaginn var fjallað um hvað atvinnulíf og fyrirtækin geta gert til að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda strax, til ársins 2020 og til 2050. Þetta var í þriðja sinn sem slíkur dagur er haldinn í tengslum við loftslagsráðstefnuna en fyrsta skiptið var á Balí fyrir 2 árum.

Auk þessa standa dönsku samtök iðnaðarins, Dansk Industri, fyrir sérstakri og mjög metnaðarfullri sýningu og ráðstefnudagskrá undir yfirskriftinni BRIGHT GREEN sem má fræðast nánar um á meðfylgjandi vef: www.brightgreen.dk

Pétur Reimarsson