Loftslagsráðstefnu lýkur í dag: Heit ósk um hreina orku

Í dag lýkur loftslagsráðstefnu S.Þ. hér í Kaupmannahöfn. Þjóðarleiðtogar hafa unnið að almennu samkomulagi í nótt en búast má við að tekist verði á um málin fram eftir degi eða jafnvel fram á nótt. Takist að ná samkomulagi verður það tengt við þau samningsdrög sem unnið hefur verið að síðastliðin tvö ár. Óvíst er hvort tekst að gera samkomulagið þannig úr garði að það geti farið til staðfestingar aðildarríkja loftslagssamnings S.Þ. eða hvort vinna þurfi að frekari útfærslu sem getur lokið á næsta ári eða því þar næsta.

Upp úr hádegi í gær, fimmtudag, tókst að koma samningaferlinu aftur af stað eftir að það stöðvaðist rúmum sólarhring áður. Það sem hratt því m.a. af stað var umræða um veruleg fjárframlög til þróunarríkja. Takist víðtækt samkomulag í loftslagsmálunum er stefnt að því að auka þessi fjárframlög jafnt og þétt þannig að 100 - 150 milljarðar Bandaríkjadala renni árlega í loftslagstengd verkefni í þróunarríkjunum árið 2020. Það voru  samninga- og tæknimenn ríkjanna sem settust að störfum og reyndu að fækka þeim ágreiningsefnum sem hafa verið að þvælast fyrir þeim undanfarin tvö ár. Þeir voru að langt fram á nótt.

Um miðjan dag í gær tilkynnti fulltrúi Íslands að hann drægi til baka tillögu um að íslenska ákvæðið svokallaða skyldi einnig gilda á næsta tímabili Kyoto-bókunarinnar. Það var nánast eini árangurinn sem náðist við að fækka umfjöllunarefnum á þeim fundi. Þetta var gert vegna þess að stjórnvöld meta ákvæðið óþarft eftir að ESB ákvað í vikunni að hefja samningaviðræður við Ísland um sameiginleg markmið í loftslagsmálum. Aldrei hefur undirritaður heyrt neinn agnúast út í tillöguna um íslenska ákvæðið á fundum loftslagsráðstefnunnar.

Frá því um hádegi í gær og langt fram eftir nóttu fluttu ráðherrar og talsmenn ríkja ræður sínar. Alls voru fluttar um 180 ræður í þessari maraþonsyrpu. Megináhersla allra ræðumanna eru hagsmunir viðkomandi ríkja og tenging við alþjóðlegt umhverfi. Það er sama hvort það eru fátækustu ríki heims eða hin betur stæðu. Athyglisvert er að samstaða þróunarríkja hefur ekki verið eins sterk og áður. Enda erfitt að sjá hvað fámennar láglendar eyjar eiga sammerkt með öflugustu hagkerfum heims eins og Kína og Kóreu. Jafnvel þótt þau ríki sem nú falla undir Kyoto-bókunina væru án útstreymis gróðurhúsalofttegunda myndi útstreymið halda áfram að aukast í heiminum. Flest iðnríkjanna leggja áherslu á að þau séu reiðubúin að leggja sitt af mörkum til að styðja við þróunarríkin - bæði nú þegar og til lengri tíma í tengslum við nýtt heildarsamkomulag um loftslagsmál.

Almennir fulltrúar á ráðstefnunni geta einungis fylgst með ræðunum á sjónvarpsskjám. Það eru einungis fjórir fulltrúar frá hverju ríki sem fá að vera í salnum og þegar hinir minni spámenn tala vekur það ekki mikla athygli annarra en fulltrúa viðkomandi ríkja. Þess vegna eru vart nema nokkrir tugir manna í salnum þegar komið er langt fram á kvöld eða nótt. Það er samt fróðlegt að hlusta á marga lýsa aðstæðum fólksins í viðkomandi ríkjum og hvað þeir telja mikilvægast að ná fram á ráðstefnunni. Að mestu eru ræðurnar samt algerlega fyrirsjáanlegar.

Ósk um hreina orku er eins og rauður þráður sem tengir saman mjög margar af ræðum fulltrúa ríkjanna. Það er sama hvort um ræðir fátæk þróunarríki sem þurfa aðstoð til að byggja upp innviði sína og tækniþekkingu eða öflug iðnríki sem hafa bæði fjármagn og þekkingu á þessu sviði. Áform um uppbyggingu endurnýjanlegra orkulinda eru þeim sameiginleg.

Umhverfisráðherra Íslands, Svandís Svavarsdóttir, hóf flutning sinnar þriggja mínútna ræðu um kl. tvö í nótt. Hún ræddi um þá vá sem að mannkyninu og umhverfinu stafar og lagði áherslu á að bregðast verði við. Hún minntist á landgræðslu, skógrækt, endurheimt votlendis og mikilvægi fiskveiða. Sagði jafnframt að stefnt væri að kolefnissnauðu samfélagi og minntist á samgöngur og fiskveiðar í því sambandi. Svandís sagði alla raforkuframleiðslu á Íslandi vera úr endurnýjanlegum orkugjöfum. Að lokinni ræðunni voru enn 30 manns á mælendaskrá.

Og nú í morgunsárið er Obama kominn og þá geta hlutirnir farið að gerast.

Pétur Reimarsson