Loftslagshagsmunir Íslands verði tryggðir

Útstreymi gróðurhúsalofttegunda í heiminum stafar fyrst og fremst af tvennu. Annars vegar af brennslu jarðefnaeldsneytis til orkuframleiðslu (kola, olíu og jarðgass) og hins vegar vegna eyðingar skóga. Lykilatriði er að í nýjum loftslagssamningi verði fyrst og fremst hvatt til aðgerða sem tengjast þessum sviðum. Ríki heims munu á næstu árum og áratugum keppast við að þróa nýjar aðferðir við orkuframleiðslu og leggja feiknamikla áherslu á nýtingu endurnýjanlegra orkulinda ásamt því að stórefla rannsóknir og þróun á þessu sviði.

Ríki heims eru almennt sammála um að nauðsynlegt sé að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda og vilja ná ákveðnum markmiðum í því skyni. Þetta kemur ekki í veg fyrir að þau gæti þjóðarhagsmuna við samningagerðina og leggi áherslu á sérstöðu aðstæðna heima fyrir og hve breytilegt útstreymismynstrið er í einstökum ríkjum. Þetta er að sjálfsögðu eðlilegt og í öllum samningsskjölum er einmitt lögð áhersla á mikilvægi þess að aðgerðir taki mið af aðstæðum í hverju ríki fyrir sig.

Á Íslandi er að finna gnótt endurnýjanlegra orkulinda og mikilvægt að leggja mikla áherslu á rannsóknir og nýsköpun á þessu sviði. Þótt menn telji sig vita nokkurn veginn hvað t.d. einstök jarðhitakerfi geta skapað mikla orku þá getur ný tækni opnað nýja möguleika og skapað meiri vinnslumöguleika en unnt er með núverandi tækni.

Í loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna er sérstaklega tekið fram að hann takmarki á engan hátt nýtingu auðlinda einstakra ríkja. Enda er það svo að engar kröfur eru uppi um að einstök ríki hætti olíu- og gasvinnslu eða þau loki kolanámum. Því yrði athyglisvert í meira lagi ef niðurstaða samninga um loftslagsmál leiðir til þess að skorður verði settar á nýtingu endurnýjanlegrar orku á Íslandi - einmitt þegar sjónarmið um vernd umhverfisins krefjast þess að endurnýjanlegar orkulindir verði nýttar nánast hvar sem þær finnast. Þetta skýrist af því að enn hefur ekki verið fundin hagkvæm leið til að flytja út íslenska orku nema í formi afurða sem í mörgum tilvikum valda útstreymi gróðurhúsalofttegunda. Heildarútstreymi vegna framleiðslu þessara afurða verður þó miklu mun minna en ef nýtt væri jarðefnaeldsneyti til framleiðslunnar. Það er þó rétt að leggja áherslu á að orkunýting á Íslandi verður að samræmast efnahagslegum markmiðum og sjónarmiðum um náttúruvernd á hverjum tíma.

Það er afar erfitt að sjá fyrir sér að íslensk stjórnvöld geti skrifað undir samning um loftslagsmál sem í raun felur í sér afsal yfirráða yfir orkulindum landsins í hendur alþjóðlegs samnings eða stofnunar. Það er enda ólíklegt að unnt hefði verið að staðfesta Kyoto-bókunina á sínum tíma af Íslands hálfu ef önnur ríki hefðu ekki viðurkennt sérstöðu Íslands og í raun forystu Íslendinga í að nýta endurnýjanlegar orkulindir. Ekkert ríki í heiminum hafði þá náð viðlíka árangri á þessu sviði og enn er Ísland í forystu þegar kemur að hlutfalli endurnýjanlegrar orku í hagkerfinu.

Orkunotkun á Íslandi er mjög mikil í samanburði við aðrar þjóðir en hlutfall útstreymis sem hlutfall af landsframleiðslu er mjög lágt þótt afleiðing af mikilli orkuvinnslu og tengdum afurðum geri að verkum að útstreymi á íbúa verði tiltölulega hátt.

Áherslur íslenskra stjórnvalda

Í viðræðunum um framhald Kyoto-bókunarinnar og Balí-áætlunina hafa íslensk stjórnvöld lagt áherslu á þrjú meginatriði.

Í fyrsta lagi hefur verið hvatt til þess að gætt verði kynjasjónarmiða við alla samningsgerð. Bent hefur verið á að loftslagsbreytingar geti bitnað sérstaklega illa á konum og börnum í þriðja heiminum. Nauðsynlegt sé því að huga sérstaklega að hagsmunum kvenna og þess gætt að aðgerðir taki mið af þeim. Enginn vafi er á því að þetta nýtur mikils stuðnings og hafa fulltrúar í sendinefnd Íslands margoft fengið þakkir fyrir þennan málflutning.

Í öðru lagi hefur sendinefndin lagt mikla áherslu á að landgræðsla geti áfram talist til tekna við að draga úr útstreymi. Það hefur til þessa verið unnt að telja kolefni sem bundið er með landgræðslu fram í útstreymisbókhaldi Íslands og mikilvægt að svo verði áfram. Einnig hefur sendinefndin unnið að því með öðrum ríkjum að endurheimt votlendis skuli tekin með í útstreymisbókhaldið. Framræstar mýrar og votlendi hér á landi veldur því að land þornar og á sama tíma losnar um gróðurhúsalofttegundir sem bundnar hafa verið í mýrunum. Þetta er sá liður sem mestu útstreymi veldur á Íslandi. Með því að unnt verði að telja endurheimt votlendis með í bókhaldinu skapast miklir möguleikar til að draga úr útstreymi á landinu. Þessi sjónarmið hafa notið töluverðs stuðnings í viðræðunum en það er þó alveg óljóst um endanleg afdrif þeirra.

Í þriðja lagi hafa stjórnvöld lagt áherslu á sérstöðu Íslands er varðar endurnýjanlegar orkulindir. Lagt hefur verið til að þessi sérstaða verði viðurkennd í nýju loftslagssamkomulagi á svipaðan hátt og í Kyoto ("íslenska ákvæðið"). Tillögur Íslands um þetta efni er að finna í samningsskjölum bæði um framhald Kyoto-bókunarinnar og eins um Balí-áætlunina.

Íslensk stjórnvöld hafa einnig kynnt stefnumótun ríkisstjórnarinnar um að stefnt sé að samdrætti útstreymis frá 1990 um 50-75% fram til 2050 og um 15% til 2020. 15% minnkun útstreymis 2020 frá 1990 jafngildir um 25% samdrætti frá heimildum Íslands í Kyoto-bókuninni en samkvæmt henni má útstreymi hér á landi aukast um 10% frá 1990 til 2008-12.

Almennt hafa stjórnvöld einnig tekið undir það sjónarmið að nauðsynlegt sé að ná víðtæku samkomulagi sem taki til allra helstu hagkerfa heims.

Pétur Reimarsson