Leitað verði orsaka mismunandi matvælaverðs

Samtök atvinnulífsins taka í umsögn undir tillögu til þingsályktunar þess efnis að ríkisstjórninni verði falið að leita orsaka fyrir mismunandi matvælaverði á Norðurlöndum og í Evrópusambandinu. Samtökin telja að slík athugun geti leitt mikilvægar upplýsingar í ljós og leiðrétt misskilning sem borið hefur á í almennum umræðum um samanburð á almennu verðlagi og þróun þess hérlendis og í nágrannalöndum. Áhersla er jafnframt lögð á að miklar kröfur verður að gera um vinnubrögð og faglegan grunn í slíkri athugun.

Skyld tillaga vekur nokkra furðu
SA telja hins vegar skylda tillögu til þingsályktunar vekja nokkra furðu, en þar óska sömu flutningsmenn eftir að Alþingi álykti að fela ráðherra Hagstofu Íslands að láta bera saman reglulega matvælaverð á Íslandi við matvælaverð á Norðurlöndum og í Evrópusambandinu. Samanburðinn skal samkvæmt tillögunni birta ársfjórðungslega. Í umsögn vekja SA athygli á því að umrædd erlend samanburðargögn eru ekki birt opinberlega af hagstofum einstakra Evrópuríkja og að upplýsingar Eurostat eru byggðar á könnunum sem gerðar eru þriðja hvert ár og svo framreiknaðar. Til þess að Hagstofa Íslands ætti að geta framkvæmt efni tillögunnar þá þyrfti hún því sjálf að afla gagna ársfjórðungslega um vöruverð í samanburðarlöndunum, sem ekki getur verið tilgangur tillögunnar að mati SA.

Sjá tillögu til þingsályktunar, 3. mál og umsögn SA (pdf-skjal)

Sjá tillögu til þingsályktunar, 7. mál og umsögn SA (pdf-skjal)