Leikskóli frá níu mánaða aldri

Barneignir hafa jákvæð áhrif á laun karla en neikvæð áhrif á laun kvenna. Þetta sýna rannsóknir en þessu má breyta. Með því að auka dagvistunarþjónustu frá því að fæðingarorlofi lýkur og þar til leikskólavist hefst má jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Einnig yrði þetta til að draga úr launamun kynjanna, auka hlut kvenna í stjórnunarstöðum og gera þeim kleift að sækja fram á fleiri sviðum en nú er.

Forgangsraðað í þágu jafnréttis?
Á undanförnum árum hafa Samtök atvinnulífsins lagt mikið kapp á að tryggja jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Einna mikilvægast í því skyni er að bjóða börnum upp á pláss á leikskóla frá níu mánaða aldri.

Samtök atvinnulífsins munu ekki láta sitt eftir liggja ef vilji er til að stíga alvöru skref til að auka jafnrétti kynjanna.

SA hafa áður lagt til að grunnskólaganga hefjist við fimm ára aldur. Það myndi samhliða skapa svigrúm til lækkunar á dagvistunaraldri og tryggja öllum börnum viðeigandi dagvistun frá því fæðingarorlofi foreldra lýkur þar til skólaskyldu barnsins lýkur. Til að brúa bilið sem nú er til staðar neyðast foreldrar oft til að taka launalaust leyfi frá störfum. Reynslan sýnir að sú byrði lendir oftar á konum sem þar af leiðandi verða af tækifærum á vinnumarkaði og dragast aftur úr varðandi starfsframvindu og laun samanborið við karlmenn.

Það eru því raunveruleg tækifæri til staðar til að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Þetta úrræði gerir hins vegar þá kröfu til stjórnmálamanna að þeir skeri niður til annarra málaflokka og forgangsraði í fjármálum hins opinbera. Að þessu verki þurfa bæði að koma sveitarfélög og ríki.

Áhrifaríkasta leiðin?
Nú liggur fyrir að jafnlaunavottun verður að öllum líkindum lögfest. Eftir stendur spurningin hvort lögfesting sé áhrifaríkasta leiðin til að draga úr aðstöðumun kynjanna á vinnumarkaði. Það er auðvelt fyrir stjórnmálamenn að slá sig til riddara með því að setja fram lög um jafnlaunavottun og láta fyrirtækin bera kostnaðinn. Jafnvel þótt það taki mörg ár að innleiða lögin og að erfitt verði að meta árangurinn af lagasetningunni fyrr en að löngum tíma liðnum.

Samtök atvinnulífsins munu ekki láta sitt eftir liggja ef vilji er til að stíga alvöru skref til að auka jafnrétti kynjanna. Örugg dagvistunarúrræði frá níu mánaða aldri eru sennilega öflugasta verkfæri samfélagsins gegn launamun kynjanna.

Yfir til ykkar, stjórnmálamenn.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 16. maí 2017.

Tengt efni:

Umsögn SA til Alþingis um jafnlaunavottun (PDF)