Leiðrétting
Umhverfis- og heilbrigðisstofa Reykjavíkur hefur gert athugasemd við upphæð lögboðinna eftirlits- og leyfisgjalda sem stofnunin leggur á atvinnulífið, eins og hún er sett fram í skýrslu Samtaka atvinnulífsins, "Bætum lífskjörin!", í kaflanum "kostnaður við eftirlitsiðnaðinn." Í samantekt í töfluformi er upphæðin 135.923 þús. kr. tilgreind sem þau lögboðnu eftirlits- og leyfisgjöld sem lögð verði á atvinnulífið árið 2003 samkvæmt fjárhagsáætlun Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur 2003. Þarna gætti ákveðins misskilnings við úrvinnslu gagna hjá SA en hið rétta er að hér er um áætlaðan heildarkostnað vegna eftirlitsskyldra fyrirtækja og stofnana að ræða sem atvinnulífið greiðir aðeins hluta af. Samkvæmt rekstraráætlun stofnunarinnar fyrir árið 2003 eru tekjur af hollustuháttadeild, matvæladeild og mengunarvörnum áætlaðar 77.916 þús. kr., sem eru þau eftirlits- og leyfisgjöld sem áætlað er að lögð verði á fyrirtæki og stofnanir árið 2003. Er beðist velvirðingar á þessum mistökum. Rétt er þó að taka fram að leiðrétting á þessari línu í töflu skýrslunnar breytir litlu um heildarniðurstöðu umfjöllunar SA um þessi gjöld sem atvinnulífið greiðir.
Loks skal þess getið að á síðasta ári, 2002, voru heildartekjur vegna eftirlits og starfsleyfa heilbrigðiseftirlits í Reykjavík 67.520 þús. kr., en heildargjöld að frátöldum stjórnunar-, skrifstofu og húsnæðiskostnaði 92.778 þús. kr. Mismunurinn 25.262 þús. kr. var greiddur af Reykjavíkurborg.