Leiðbeiningar um lokunar- og tekjufallsstyrki

Þann 5. nóvember voru samþykkt lög um tekjufallsstyrki og áframhaldandi lokunarstyrki. Styrkirnir eru ætlaðir þeim sem hefur verið gert að stöðva starfsemi sína vegna sóttvarnaraðgerða og þeim sem orðið hafa fyrir miklu tekjufalli vegna áhrifa faraldursins. Allir sem stunda atvinnurekstur munu geta sótt um hvort sem reksturinn er á vegum fyrirtækis eða einstaklings.

Umsóknir um styrkina skal beina til Skattsins sem vinnur nú að því að gerð umsóknareyðublaða og leiðbeininga. Sú vinna mun taka vikur en búast má við leiðbeiningum á vefsíðu Skattsins á næstu dögum. Auglýst verður á vef Skattsins þegar opnað verður fyrir umsóknir.

Lokunarstyrkir

Skilyrði lokunarstyrkja frá 5. nóvember eru að mörgu leyti þau sömu og áður en eftirfarandi breytingar eru gerðar:

  • Lokunartímabilið er frá 18. september.
  • Fjárhæð styrks miðast við rekstrarkostnað á hverju lokunartímabili en þó ekki hærri en 600.000 kr. á hvern launamann sem starfaði hjá launagreiðanda í upphafi hvers 30 daga lokunartímabils. Heildarfjárhæð lokunarstyrkja til tengdra aðila getur að hámarki numið 120 millj. kr. Ef rekstur taldist í erfiðleikum 31. desember 2019 getur heildarfjárhæð styrkja að hámarki numið 30 millj. kr.
  • Umsókn um lokunarstyrki verður að berast eigi síðar en þremur mánuðum eftir að lokunartímabili lýkur.

Tekjufallsstyrkir

Skilyrði þeirra eru:

  • Atvinnurekstur hófst fyrir 1. apríl.
  • Tekjur frá 1. apríl til 31. október 2020 voru a.m.k. 40% lægri en meðaltekjur á sjö mánaða tímabili 2019 og rekja má tekjufallið til heimsfaraldurs kórónuveiru.
  • Rekstraraðili má ekki vera í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattsektir fyrir ákveðið tímabil.
  • Rekstraraðili hefur ekki verið tekinn til slita eða bú hans til gjaldþrotaskipta.

Fjárhæð tekjufallsstyrks miðast við rekstrarkostnað á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020 en verður aldrei hærri en tekjufallið. Styrkurinn getur aldrei orðið hærri en 400 þús. kr. fyrir hvert mánaðarlegt stöðugildi og ekki hærri en 2. millj. kr. sé tekjufallið á bilinu 40-70%. Ef tekjufall er meira en 70% getur styrkurinn aldrei orðið hærri en 500 þús. kr. fyrir hvert mánaðarlegt stöðugildi eða í mesta lagi 2,5 millj. kr.  

Umsókn skal beint til Skattsins eigi síðar en 1. maí 2021.

SA býður fyrirtækjum rekstrarráðgjöf

Rekstrarráðgjafi Samtaka atvinnulífsins svarar almennum spurningum félagsmanna um rekstur og aðstoðar félagsmenn við rekstrargreiningu og endurskipulagningu. Smelltu hér til að bóka rekstrarviðtal.