Leiðari fréttabréfs SA: Ólíkt höfumst við að

Danski forsætisráðherrann, Helle Thorning-Schmidt, hélt ræðu á ársfundi Dansk Industri 25. september sl. Ráðherrann kom víða við og fjallaði sérstaklega um hvernig ríkisstjórn hennar reynir að ná samstöðu í samfélaginu um helstu viðfangsefni stjórnmála og atvinnulífs. Eftirfarandi kafli í ræðu ráðherrans er sérstaklega athyglisverður en hægt er að horfa á ávarpið á vef SA ...

HTS 3

"Og hvis vi ser på de næsten 30 nye politiske aftaler, som regeringen har indgået i løbet af vores første år, har V og K været med i langt de fleste. Og Enhedslisten med i halvdelen.


Vi har gjort op med blokpolitikken. Det gavner Danmark. Det gavner jer. For brede løsninger er solide og langsigtede løsninger. De giver jer en stabil ramme til at drive jeres virksomheder."

Þarna er lýst kjarna þess sem einkennir stjórnmál á Norðurlöndunum, hvort heldur ríkisstjórnirnar kenna sig við vinstri eða hægri. Reynt er að ná saman við stjórnarandstöðuna og aðila vinnumarkaðarins um helstu mál og forðast að senda samfélagið í U-beygjur í hverju málinu á fætur öðru. Horft er á praktískar lausnir fremur en hugmyndafræðilega sigra.

Þegar stjórnmálaflokkar starfa þannig skapast stöðugleiki. Atvinnulífið þarf á stöðugleikanum að halda.  Stöðugleikinn hjálpar fyrirtækjum til þess að taka ákvarðanir um fjárfestingar og rekstur á réttum forsendum.  Óstöðugleiki kippir fótunum undan ákvörðunum fyrirtækja og leiðir til lakari frammistöðu og samkeppnishæfni.

Ríkisstjórnin hér á landi hefur haldið í þveröfuga átt en ætla mætti af því sem kallað er norræn velferðarstjórn.  Í upphafi ferils síns leitaði ríkisstjórnin samstarfs við aðila vinnumarkaðarins og vildi móta sameiginlega sýn á mikilvæga vegferð þjóðarinnar út úr erfiðleikunum eftir bankahrunið 2008. Fljótlega komu brestir í samstarfið af hálfu ríkisstjórnarinnar. Áhuginn á hugmyndafræðilegum sigrum varð sífellt meiri innan stjórnarliðsins, pólitísk græðgi varð æ meira áberandi og þörfin til að nota völdin til að rétta kúrsinn af eftir margháttaða ósigra fyrri tíma var óseðjandi.

Ríkisstjórnin hefur ekki viljað beita sér fyrir uppbyggingu í stóriðju með tilheyrandi virkjunum heldur lagt fram rammaáætlun um orkunýtingu sem slær út af borðinu flesta þá virkjanakosti sem helst hafa verið rannsakaðir.  Ríkisstjórnin hefur gengið fram af miklu offorsi gagnvart sjávarútvegi og snúið algjörlega baki við þeirri sáttaleið sem endurskoðun á fiskveiðistjórnuninni hófst með. Ríkisstjórnin hefur ekki efnt samkomulag um skattalegt umhverfi stjóriðju og lagt veiðigjald á sjávarútveg sem er langt umfram það sem skynsamlegt getur talist.

Ríkisstjórnin hefur snúið baki við þeirri stefnu að eyða fjárlagahalla með blöndu af niðurskurði og skattahækkunum. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2013 eru útgjöld aukin með skattlagningu á atvinnulífið. Skattar eru hækkaðir sérstaklega á ferðaþjónustu í stað þess að haga skattlagningunni í samræmi við samkeppnishæfni Íslands sem ferðamannalands en um þá stefnu hafði ríkt góð samstaða. Hækka á vörugjöld á matvæli sem handahófskennt mismuna einstökum neytendum og framleiðendum. Fjármálaþjónustan er skattlögð umfram aðrar atvinnugreinar þegar eitt helsta áhyggjuefni ríkisstjórnarinnar ætti að vera samkeppnisstaða íslenskra fjármálafyrirtækja að lokinni fjárhaglegri uppstokkun atvinnulífsins.

Við fjárlagagerðina tók ríkisstjórnin ákvörðun um að hafa að engu samkomulag við Samtök atvinnulífsins um að lækka tryggingagjald í takt við lægra atvinnuleysi. Atvinnulífið tók á sig hækkun tryggingagjaldsins á erfiðum tímum til þess að greiða fyrir kostnaðinn af atvinnuleysinu á þeirri forsendu að gjaldið lækkaði þegar það minnkaði á ný. Nú skiptir engu máli um hvað var talað og um hvað var samið. Samkvæmt hugmyndafræði ríkisstjórnarinnar skiptir svoleiðis ekki máli. Tilgangurinn helgar meðalið.

Ríkisstjórnin forðast að tala við og ná samkomulagi við aðila sem ekki eru samstíga henni í hugmyndafræðilegri baráttu fyrir umturnuðu samfélagi. Stórum málum er haldið innan afar þröngs hóps sem tekur ákvarðanir og allar málamiðlanir eru gerðar innan hans. Litlu er svo hægt að breyta þegar málin koma fram.

Ríkisstjórnin starfar þannig þvert á það sem tíðkast í hinu norræna velferðarsamfélagi. Íslenskt atvinnulíf á annað og betra skilið. Nauðsynlegt er að endurheimta stöðugleikann. Þar liggur galdurinn í uppskriftinni að árangri sem náðst hefur á Norðurlöndunum. slendingar geta náð sama árangri. En ekki með þeim vinnubrögðum sem nú eru tíðkuð.   

Vilhjálmur Egilsson

Af vettvangi í október 2012

Tengt efni: Ávarp Helle Thorning Schmidt á ársfundi DI 2012

Smelltu til að horfa