Launaþróunartrygging treystir grundvöll nýs samningalíkans

Samtök atvinnulífsins, ASÍ, fjármálaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, ASÍ og BSRB undirrituðu í dag samkomulag um uppbætur á laun tiltekinna hópa ríkisstarfsmanna. Laun félagsmanna aðildarfélaga BSRB sem starfa hjá ríkinu munu hækka að meðaltali um 1,3 prósent og laun félagsmanna aðildarfélaga ASÍ sem starfa hjá ríkinu um 1,8 prósent. Samkomulagið er gert á grundvelli rammasamkomulags framangreindra aðila, dagsett 27. október 2015.

Niðurstaðan byggir á samanburði meðaltals launaþróunar á tímabilinu nóvember 2013 til nóvember 2016. Launaþróun félagsmanna aðildarfélaga BSRB og ASÍ, sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum, er borin saman við almennan vinnumarkað. Samkvæmt rammasamkomulaginu skal samanburðurinn aftur fara fram vegna þróunar fram til nóvember 2017 og nóvember 2018, og skal samið um uppbætur á laun ef tilefni er til þegar þær tölur liggja fyrir.

Rammasamkomulagið fjallar um uppbyggingu nýs samningalíkans á íslenskum vinnumarkaði. Launaþróunartryggingin er einn þáttur þess og er markmið hennar að samningsgerð snúist um framtíðarþróun í stað þess að líta til fortíðar eins og kjaraviðræður á Íslandi hafa einkennst af.

Fyrirmynd launaþróunartryggingarinnar er að rekja til samsvarandi fyrirkomulags í Danmörku og Noregi.

„Með undirritun í dag er stigið mikilvægt skref til að treysta grundvöll nýs samningalíkans á íslenskum vinnumarkaði. Launaþróunartrygging er tæki sem hefur virkað vel í nágrannalöndunum og komið í veg fyrir að kjaraviðræður snúist um leiðréttingar vegna fortíðarþróunar. Verði þessi nálgun fest í sessi, ásamt öðrum breytingum sem felast í rammasamkomulaginu, mun það stuðla að stórbættum vinnubrögðum við gerð kjarasamninga.“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.