Laun hækkuðu um 4,5% 1. maí

Laun á almennum vinnumarkaði hækkuðu um 4,5% þann 1. maí samkvæmt gildandi kjarasamningum SA og aðildarsamtaka ASÍ. Ný kaupgjaldskrá er komin út með uppfærðum launatöxtum og má nálgast hana hér á vef SA.

Reikna má með því að við þetta hækki launakostnaður fyrirtækja um 42 milljarða króna á ársgrundvelli. Er þá miðað við að heildarlaunagreiðslur fyrirtækja á almennum markaði á árinu 2016 hafi numið 930 milljörðum króna. Hækkun iðgjalds í lífeyrissjóði 1. júlí næstkomandi um 1,5%  hækkar launakostnað fyrirtækja á almennum markaði um 14 milljarða á ári til viðbótar þannig að umsamin launakostnaðarhækkun fyrirtækja á þessu ári nemur 56 milljörðum króna á ársgrundvelli.

Þetta eru ríflegar launahækkanir ef horft er til nágrannalandanna. Samkvæmt nýjum kjarasamningum í Svíþjóð hækka laun um samtals 6,5% á þremur árum til loka mars 2020. Í Noregi hækka laun um 2,4% á þessu ári.

Sjá nánar:

Kaupgjaldskrá nr. 20. Gildir frá 1. maí 2017 (PDF)

Tengt efni:

Norrænir frændur og íslenska sérstaðan