Laun hækka ekki umfram kjarasamninga
"Það er klárt mál frá okkar hendi að það er ekkert til okkar að sækja. Fyrirtækin eru ekki í stakk búin til að taka á sig meiri launahækkanir," segir Vilmundur Jósefsson, formaður SA í Morgunblaðinu í dag. Í janúar verða forsendur gildandi kjarasamninga á almennum vinnumarkaði metnar, en verði þeim ekki sagt upp hækka laun um 3,25% þann 1. febrúar nk. og gilda þá samningarnir sem ritað var undir í maí 2011 til loka janúar 2014.
Samningarnir voru atvinnulífinu dýrir og fela í sér mun meiri launahækkanir en í samkeppnislöndum Íslands. Lykilforsendur SA fyrir þessum miklu hækkunum voru að blásið yrði til sóknar í atvinnulífinu með auknum fjárfestingum og umsvifum í efnahagslífinu og að tryggingagjald yrði lækkað í takt við minnkandi atvinnuleysi. Atvinnulífið hefur staðið við sitt og kaupmáttur launa aukist , en ekki hefur tekist að auka hér hagvöxt eins og stefnt var að og stjórnvöld hafa ekki staðið við loforð sitt um lækkun tryggingagjalds. Ljóst var við undirritun samninganna að þeir yrðu verðbólguhvetjandi án aukinna fjárfestinga sem myndu skapa aukið svigrúm til launahækkana.
Á formannafundi ASÍ í gær kom fram að ASÍ myndi ekki eiga frekari samskipti við núverandi ríkisstjórn vegna brostinna fyrirheita sem gefin voru í tengslum við undirskrift kjarasamninganna. Jafnframt að farið yrði fram á að fyrirtæki hækki laun enn frekar umfram það sem samið var um. Í samtali við Fréttablaðið ítrekar formaður SA að sjálfsagt sé að ræða við ASÍ um leiðir til að auka kaupmátt en laun verði ekki hækkuð umfram gildandi kjarasamninga.
Í frétt á vef SA sem birt var í gær kemur fram að laun hafa að meðaltali hækkað um 14,0% samkvæmt launavísitölu frá upphafi 2011 til október 2012. Vísitala neysluverðs hækkaði um 10,3% á sama tímabili þannig að kaupmáttur launa var 3,4% hærri í október 2012 en í upphafi síðasta árs. Umsamdir kauptaxtar hækkuðu almennt um 12.000 kr. árið 2011 og um 11.000 kr. á árinu 2012. Lágmarkslaun hækkuðu hlutfallslega mest eða um 17% á þessum tæpu tveimur árum og kaupmáttur þeirra um 6,1%. Kaupmáttur umsaminna taxta í samningum SA og landssambanda ASÍ hefur aukist í nær öllum tilvikum. Meginforsenda gildandi kjarasamninga er að kaupmáttur hafi aukist á samningstímabilinu.
Samtök atvinnulífsins telja mikilvægt að stefna að því að ná þeim markmiðum sem aðilar settu sér við undirritun samninganna, þ.e. að bæta hag fólks og fyrirtækja með aukinni verðmætasköpun. Það verður hins vegar ekki gert með því að hækka laun enn frekar og kynda þar með undir verðbólgunni. Það myndi stuðla að veikingu á gengi krónunnar og enn hækkandi vöxtum.
Í samtali við fréttastofu RÚV í morgun greindi Vilmundur Jósefsson frá því að innan SA væru þær raddir uppi að segja beri samningunum upp vegna vanefnda stjórnvalda á fjölmörgum fyrirheitum sem ekki hafi gengið eftir í tengslum við kjarasamningana. Hins vegar beri að líta til þess að kaupmáttur hafi aukist á samningstímabilinu sem sé aðalmálið og því eigi samningarnir að standa.
Tengt efni: