Landlæknir kallar eftir aukinni umræðu um einkarekstur
Í nýju riti SA um einkarekstur í heilbrigðisþjónustu kallar Sigurður Guðmundsson landlæknir eftir aukinni umræðu um einkarekstur í heilbrigðisþjónustu. Landlæknir bendir á að þörf sé á markvissari rekstri í íslenskri heilbrigðisþjónustu og spáir því að einkasjúkrahús verði tekið til starfa á Íslandi innan fárra ára.
Þörf á umræðu og markvissari rekstri
Í ritinu Heilbrigður einkarekstur er m.a. rætt við Sigurður Guðmundsson landlækni um einkarekstur í heilbrigðisþjónustu og framtíðarhorfur í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Í viðtalinu kallar landlæknir eftir frekari umræðu um einkarekstur og segir m.a. "Það er rétt að þessi umræða fari fram, hún þarf að gera það. Ég vildi sjá hana meiri."
Landlæknir bendir ennfremur á að ef halda eigi núverandi þjónustustigi í íslensku heilbrigðiskerfi og jafnvel að efla það þurfi fleira að koma til en aukin fjárútlát til heilbrigðismála. Þörf sé á markvissari rekstri. "Ég held að við getum ekkert vikið okkur undan því í heilbrigðisþjónustunni að það hlýtur að vera rými til markvissari rekstrar innan hennar. Ég held við verðum bara að gera ráð fyrir því og að hagræðing verði að haldast í hendur við sókn og metnað innan heilbrigðisþjónustunnar," segir Sigurður.
Einkasjúkrahús í augsýn
Landlæknir spáir því að þess verði ekki langt að bíða að einkaaðilar taki að sér rekstur sjúkrahúss til hliðar við Landspítala-háskólasjúkrahús "Ég held að það sé rétt að einkasjúkrahús sé aðeins spurning um tíma. Ég held að það sé ekki spurning um hvort heldur hvenær og grundvöllurinn fyrir þeirri skoðun er að við erum komin svo langt eftir þeirri leið," segir landlæknir og telur að einkasjúkrahús verði tekið til starfa á Íslandi innan fárra ára.