Kynning til aðildarfyrirtækja SA á sértækri ráðgjöf Vinnumálastofnunar

Vinnumálastofnun býður upp á sértæka ráðgjöf og vinnumiðlun fyrir öryrkja og þá sem búa við skerta starfsgetu. Starfsemin er byggð á hugmyndafræði Supported employment eða „atvinnu með stuðningi“. Helstu markmið þjónustunnar eru að styðja atvinnuleitendur við að komast á almennan vinnumarkað.

  •  Fyrsta skrefið í átt að atvinnu getur verið starfskynning. Með þeim hætti getur einstaklingurinn kynnt sér starfið og yfirmenn mátað starfsmann við starfið. Engin binding felst í starfskynningu. Komi til ráðningar veitir Vinnumálastofnun starfsmanni og vinnuveitanda stuðning, ráðgjöf og eftirfylgd eftir þörfum. Eftirfylgd dvínar eftir því sem færni og öryggi eykst en ráðgjafar eru alltaf staðar.
  • Vinnumálastofnun er umsjónaraðili fyrir vinnusamning öryrkja sem er endurgreiðslusamningur. Markmiðið með samingnum er að auka möguleika atvinnuleitenda með skerta starfsgetu að ráða sig í vinnu á almennum vinnumarkaði.
  • Atvinnurekandi greiðir starfsmanni á vinnusamningi kjarasamningsbundin laun og fær endurgreitt hlutfall af launum og launatengdum gjöldum samkvæmt gildandi samningi. Endurgreiðsluhlutfallið er 75% fyrstu tvö ár í starfi, hlutfallið lækkar síðan um 10% á ári þar til 25 % lágmarks endurgreiðsluhlutfalli er náð.
  • Vinnusamningurinn er uppsegjanlegur af báðum aðilum. Ráðgjafar sjá um gerð samninga og kynna fyrir atvinnurekendum hvernig endurgreiðsluferlinu er háttað. Ferlið er rafrænt inn á heimasíðu Vinnumálastofnunnar og afar einfalt í sniðum.
  • Á hverju ári útskrifast nemendur af starfsbrautum framhaldsskólanna. Lögð er mikil áhersla á að koma þeim hópi í störf að útskrift lokinni og hefur teymi innan deildarinnar sinnt þeim með góðum árangri.

Að hafa vinnu við hæfi eykur lífsgæði en atvinnuþátttaka þeirra sem búa ekki við fulla starfsgetu eru mun minni en annarra. Um árabil hefur atvinna með stuðningi notið mikillar velgengni og hafa myndast árangursrík samskipti við ótal fyrirtæki,  ríkisstofnanir og sveitarfélög.

Við hvetjum atvinnurekendur til að hafa samband við Vinnumálastofnun ef einhverjar spurningar kunna að vakna. Best er að senda fyrirspurnir á netfangið ams@vmst.is eða hringja í 515-4800 og óska eftir að fá að tala við ráðgjafa sem sinnir málaflokknum á þínu svæði.