Krónan sökkvandi gjaldmiðill

Íslenska krónan hefur nú aðeins 0,05%, einn tvöþúsundasta, af því verðmæti sem hún hafði gagnvart dönsku krónunni árið 1920. Hún hefur því ekki verið fljótandi í eiginlegum skilningi heldur miklu frekar sökkvandi gjaldmiðill þar sem gengi hennar hefur jafnan farið lækkandi utan fastgengis á síðari hluta tíunda áratugarins og stutts tímabils á síðasta áratug þegar Seðlabankinn hækkaði vexti ótæpilega til þess að hækka gengið með þeim afleiðingum að það varð algjörlega óraunhæft.

Íslenska krónan hefur rýrnað um 99,99% gagnvart verði á vörum og þjónustu á lýðveldistímanum. Með öðrum orðum þá hækkaði verðlag sjö þúsund falt á tímabilinu 1945-2010. Því er ekki að undra að sú ályktun sé dregin að íslenska krónan sé lítt samkeppnishæfur gjaldmiðill.


Þetta kemur fram í nýrri skýrslu SA, Rjúfum kyrrstöðuna, en þar segir að þrír kostir séu í gjaldmiðilsmálum Íslendinga; að halda krónunni sem gjaldmiðli, taka upp evru samhliða aðild að ESB og einhliða upptaka annars gjaldmiðils.

Jafnframt kemur fram í skýrslu SA að íslenska krónan verði ekki aflögð á næstu árum og góð hagstjórn treysti hana sem gjaldmiðil til skemmri sem lengri tíma. Verkefni næstu ára sé að gera betur við stjórn peningamála en hingað til. Markviss ríkisfjármálaregla og agi í fjármálastjórn opinberra aðila, öguð og raunsæ stjórn peningamála og sterkt alþjóðlega tengt fjármálakerfi séu lykilþættir í árangursríkri hagstjórn.

Ef ekki verður að upptöku evru vegna þess að Íslendingar vilji ekki ganga í ESB er raunhæft að íhuga einhliða upptöku annars gjaldmiðils. Einhliða upptaka annars gjaldmiðils væri reist á mun traustari grunni ef íslensku bankarnir væru að stórum hluta í eigu stórra og öflugra banka frá heimaríki þess gjaldmiðils sem tekinn yrði upp, eða stórra alþjóðlegra banka sem hafa greiðan aðgang að fjármagni í hvaða gjaldmiðli sem er. Þá yrði íslenska fjármálakerfið ekki eitt og einangrað ef vandi steðjaði að. Æskilegast væri að einhliða upptaka annars gjaldmiðils gæti gerst í samvinnu við heimaríki viðkomandi gjaldmiðils svo hægt yrði að koma á formlegri samvinnu Seðlabanka Íslands við seðlabanka viðkomandi ríkis um lánveitingar til þrautavara og aðra mikilvæga þætti.

Ýmsir gjaldmiðlar hafa verið nefndir til einhliða upptöku. Enginn þeirra slær evruna út að því leyti að evruríkin eru lang fyrirferðarmest í utanríkisviðskiptum Íslands en hún verður hins vegar trauðla tekin upp einhliða í andstöðu við ESB. Að evrunni frátalinni virðast nærtækustu kostirnir vera danska krónan eða breska pundið vegna mikilvægis þeirra í utanríkisviðskiptunum. Þörf er á vönduðum undirbúningi verði einhver alvara í áformum um einhliða upptöku annars gjaldmiðils.

Sjá nánar:

Umfjöllun um gjaldmiðilinn í nýju riti SA, Rjúfum kyrrstöðuna (bls. 26-28.)