Kosningaskjálfti og yfirboð
Í síðustu viku samþykkti bandaríska þingið 1,9 billjóna dollara innspýtingu, sem nefnd hefur verið „örvunarpakki Biden“. Umfang aðgerðanna er um 9% af landsframleiðslu Bandaríkjanna og bætist við aðrar aðgerðir sem ráðist var í til að örva þarlent hagkerfi á umliðnu ári.
Töluverður skjálfti hefur verið á mörkuðum ytra. Markaðsaðilar hafa áhyggjur af afleiðingum þess að ráðast í slíka útþenslustefnu á sama tíma og staða bandaríska hagkerfisins er að vænkast, á undan flestum öðrum vestrænum hagkerfum.
Hagfræðingurinn Larry Summers, fyrrverandi efnahagsráðgjafi Bills Clinton og Baracks Obama, hefur varað við því að aðgerðirnar muni takmarka svigrúm til nauðsynlegra, og um leið þjóðhagslega hagkvæmra, innviðaframkvæmda. Þær geti einnig leitt til verðbólgu sem svipar til þeirrar sem sást síðast á áttunda og níunda áratug síðustu aldar.
Hér heima eru kosningar til Alþingis framundan. Fyrirséð er að margir flokkar muni stíga fram með tillögur um frekari björgunarpakka sem leið út úr kreppunni. Í því samhengi er mikilvægt að hafa í huga að ríkisfjármálum var beitt af fullum þunga til að draga úr efnahagssamdrætti síðasta árs. Beinar mótvægisaðgerðir vegna faraldursins eru metnar á sjö prósent af landsframleiðslu. Þá bætist við sjálfvirkt viðbragð eins og aukin útgjöld til atvinnuleysistrygginga sem er óvíða meira en hér, m.a. því atvinnuleysisbætur eru almennt hærri en í nágrannaríkjum okkar.
Viðbrögð stjórnvalda og vaxtalækkanir Seðlabankans áttu vissulega þátt í því að innlend efnahagsumsvif síðasta árs drógust minna saman en spár gerðu ráð fyrir. Aftur á móti hefur stærsta útflutningsgrein landsins legið í dvala og 17 þúsund manns misst vinnuna. Forgangsmál er að endurheimta þau störf hið fyrsta.
Komandi kosningabarátta á að snúast um hvaða lausnir eru raunhæfar í þeim efnum. Yfirboð á Alþingi hafa afleiðingar í för með sér. Í því samhengi verður áhugavert að fylgjast með þróun mála í Bandaríkjunum á næstu misserum.
Ásdís Kristjánsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.