Kosningabarátta í raunheimum
Orðin „hitastig" og „verðbólga" eru mælieiningar sem lýsa ákveðnu ástandi. Orðið „hagvöxtur" er það líka og lýsir árlegri verðmætasköpun. Ef hagvöxtur mælist mikill endurspeglast það í betri lífskjörum, hærra atvinnustigi og meiri kaupmætti almennings. Án hagvaxtar getum við ekki staðið undir velferðarsamfélaginu.
Nú þegar kosningar nálgast er engin vöntun á loforðum og fögrum fyrirheitum. Af heildarútgjöldum ríkissjóðs renna 26 prósent til heilbrigðismála og vegur Landspítalinn þar langþyngst. Fjármögnun spítalans verður án efa í brennidepli enda eru flestir flokkar sammála um að þar sé víða pottur brotinn. Flokkarnir eru hins vegar ósammála um leiðir til að leysa vanda spítalans. Það er skammsýni að halda að aukin fjárframlög ein og sér dugi sem lausn við djúpstæðum vandanum. Auk þess ætti aldrei að vera sjálfstætt markmið að reka einn dýrasta spítala í heimi heldur frekar keppikefli að nýta skattféð þannig að notendur spítalans fái sem besta þjónustu.
Tillögur stjórnmálaflokka um skattkerfisbreytingar eru sjaldnast settar í tölulegt samhengi. Sem dæmi hafa þó nokkrir stjórnmálaflokkar lagt fram tillögur um að lægstu laun verði skattfrjáls. Sú breyting myndi skerða tekjur ríkissjóðs um 168 milljarða króna. Slíkar hugmyndir eru óraunhæfar og ekkert sýnilegt ákall er meðal kjósenda um að millistéttin taki á sig að greiða mismuninn í formi hærri skatta eða að samneyslan dragist saman sem upphæðinni nemur.
Einn stjórnmálaflokkur hefur opinberlega lýst því yfir að hann vilji „færa sig frá þessum sífelldu hagvaxtarpælingum" eins og þingmaður flokksins orðaði það. Sami flokkur vill hins vegar auka fjárframlög til heilbrigðismála svo um munar og draga úr skattbyrði lægstu launa. Án hagvaxtar er hins vegar ómögulegt að sjá hvernig unnt er að fjármagna slíkar tillögur. Mikilvægt er að standa vörð um grunnstoðir samfélagsins. Hér er kallað eftir því að kosningabaráttan verði byggð á trúverðugum og raunhæfum hugmyndum. Kjósendur eru ekki jafnauðtrúa og sumir virðast ætla.
Ásdís Kristjánsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.