Kór bara með bössum

Tilnefningarnefndir vinna markvisst og meðvitað að því að kortleggja færni og kosti sem mikilvæg eru fyrir tiltekna stjórn. Auk þess þarf líta heildrænt til skipan stjórnarinnar með það markmið að hópurinn í heild dekki nauðsynlegar færnikröfur sem bæði geta verið faglegar eða tengdar persónubundnum eiginleikum.  Fjölbreytileikinn skiptir höfuðmáli og getur falist m.a. í kynjahlutfalli, aldri, búsetu, menntun og reynslu, allt eftir eðli starfseminnar. Þessi nálgun er ekki aðeins jafnréttismál því það hefur sýnt sig að ákvarðanir verða betri þegar fjölbreytt sjónarmið eru lögð til grundvallar. Þessir starfshættir eru því líka rekstrarmál.

Það er ekki einkamál atvinnulífsins að innleiða starfshætti sem leiða til aukins jafnréttis, betri stjórnarhátta og ákvarðana. Þetta á ekki síður við um þjónustu hins opinbera þar sem skyldurnar snúa í miklum mæli að almannaþjónustu sem rekin er fyrir skattfé.  Það blasir við að aðferðafræði þar sem t.d. hver stjórnmálaflokkur velur sinn fulltrúa, skilar ekki endilega bestu niðurstöðunni. Í almannaþjónustu er afar mikilvægt að stjórn endurspegli hóp eigenda eða íbúa um leið og ákveðin þekking á faglegum, lögfræðilegum og rekstrarlegum viðfangsefnum þarf að vera til staðar.  Einsleitni við stjórnarborðið er líkleg til að leiða af sér einsleitar ákvarðanir án gagnrýnnar umræðu. 

Aldrei hefur mikilvægi nýrrar nálgunar verið meira. Aukin fjölbreytileiki samfélagsins, umhverfismál í algeymingi,  íbúum af erlendum uppruna fjölgar hratt og stöðug þróun tækni krefst nýrra viðbragða og nýrrar hugsunar. Allt gerir þetta að verkum að við þurfum fleiri augu á boltana,  ný og fleiri sjónarhorn.

Gæti hið opinbera náð betri árangri með tilnefningarnefndum sem vinna heildstætt að skipan í stjórnir, ráð og nefndir?  Gæti það gefi betri mynd af raunverulegum hagsmunaaðilum og eigendum? Með þessu er á engan hátt verið að færa völdin frá þeim sem hafa með skipun eða kosningu að gera. Þessir aðilar, líkt og hluthafar í hlutafélögum, geta lagt inn tillögur að fulltrúum og sem búa  yfir eiginleikum sem þeir telja brýnasta. Á sama hátt geta þeir sem ábyrgir eru fyrir kosningu eða skipan valið að fara aðra leið en tilnefningarnefnd leggur til. Með nefndunum er hins vegar tryggt að fram fari markviss greining og að fyrir liggi heildstæðar tillögur. Hið minnsta sakar ekki að þeir sem tilnefna saman skilgreini hvers konar fólk þeir telji að þurfi í hópinn.

Við pólitískar skipanir gleymist gjarnan að stjórnarmanni ber að gæta hagsmuna einingarinnar sem um ræðir umfram hagsmuni einstaka eigenda, afla eða þeirra sem tilnefndu viðkomandi. Því miður hefur það loðað við pólitískar skipanir að slíkt sé ekki haft til hliðsjónar og að fulltrúar líti á sig sem talsmenn skilgreindra afla við stjórnarborðið.

Við getum öll séð í hendi okkar Íslandskórinn sem settur er saman fyrir þjóðfund. Allir kórar landsins senda sinn öflugasta fulltrúa enda er fundurinn haldinn úti og mikilvægt að styrkar raddir skipi kórinn.  Það mun ekki mikið til hvers eilífðar smáblóms koma í flutningi kórs sem samanstendur eingöngu af bassaröddum, eins frábærar og þær eru. Við viljum fleiri raddir, við viljum ólíkar tíðnir en öflugan samhljóm.  Eru það ekki bestu kórarnir?

Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, verkefnastjóri á samkeppnishæfnisviði SA.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu.