Konur meirihluti stjórnarmanna SA í lífeyrissjóðum
Samtök atvinnulífsins hafa á undanförnum misserum unnið markvisst að því að jafna kynjahlutföll fulltrúa SA í stjórnum lífeyrissjóða. Af 27 aðalmönnum sem SA skipa í stjórnir níu sjóða eru nú 15 konur en 12 karlar. Að loknum aðalfundum sjóðanna vorið 2012 skipuðu konur 46% sæta sem SA skipuðu í en nú er hlutfallið orðið 56% eftir að nýir stjórnarmenn voru skipaðir. Verkalýðshreyfingin tilnefnir einnig 27 aðalmenn í stjórnir sjóðanna.
Þann 1. september 2013 tóku gildi lög sem kveða á um að hlutfall hvors kyns verði aldrei lægra en 40% í stjórnum lífeyrissjóða. Áhersla SA á að auka fjölbreytni í stjórnum lífeyrissjóðanna hófst þó mun fyrr og nefna má að í maí 2009 skrifuðu SA undir samstarfssamning við Félag kvenna í atvinnulífinu, Viðskiptaráð Íslands, Creditinfo og fulltrúa allra stjórnmálaflokka sem sæti áttu á Alþingi um að fjölga konum í forystusveit atvinnulífsins.