Kjaraviðræður sigldu í strand (1)
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir það vonbrigði að Flóabandalagið, Starfsgreinasambandið og VR hafi slitið kjaraviðræðum fyrr í kvöld. "Við teljum að við séum að kasta frá okkur ákveðnu tækifæri, en það er ljóst að það var ekki lengra komist í þessari lotu," segir Þorsteinn í samtali við mbl.is. Samtök atvinnulífsins hafi í þrígang teflt fram hugmyndum hvernig koma mætti sérstaklega við kröfu viðsemjenda sinna hvað varðar hækkun lægstu launa.
"Við sögðum líka mjög skýrt að til þess að hægt væri að stilla slíkar hugmyndir af þá yrðum við að ná einhverri mynd á heildarkostnaðarhækkunina, og þar með talið þá almennu prósentuhækkun sem ætti að vera á launum. Við kölluðum eftir einhverskonar útspili af þeirra hálfu í þeim efnum í ljósi þess að þeir höfðu hafnað okkar hugmyndum og við þeirra fyrstu hugmyndum. En þeir virtust ekki vera reiðubúnir til þess og þá var eiginlega ekkert lengra komist."
Aðspurður segir Þorsteinn að staðan sé nú óljós.
"Málið er á borði ríkissáttasemjara en það liggur ekkert fyrir hvenær verður boðað til næsta fundar," segir hann. Ríkissáttasemjari muni nú meta stöðuna og sjá til þess hvort eitthvert svigrúm skapist til frekari viðræðna. Hann segir að markmið SA hafi ávallt verið skýrt.
"Að heildarkostnaður samninganna rúmist innan markmiðs seðlabankans um stöðugt verðlag. Við höfum hins vegar lýst því yfir að við værum tilbúin til þess að horfa sérstaklega til lægstu launanna. Reyna að koma verulega á móts við kröfur í þeim efnum, en það gæti ekki verið hvoru tveggja háar prósentubreytingar og háar krónutölubreytingar. Það yrði þá að tefla þessu tvennu einhvern veginn saman, þannig að í heild sinni rúmaðist innan verðlagsstöðugleika. En það bara náðist enginn árangur á þeirri hliðinni," segir Þorsteinn að lokum.