Kjaraviðræður í Svíþjóð hefjast eftir 6 mánaða frestun vegna kórónukreppunnar
Á næstu mánuðum verða 500 kjarasamningar, sem gilda fyrir þrjár milljónir starfsmanna á almennum vinnumarkaði, endurnýjaðir í Svíþjóð. En fyrst þurfa undanfararnir, samtök launafólks og atvinnurekenda í iðnaði, að ákveða „merkið“, þ.e. almennu launahækkunina. Samkomulag er um að merkið liggi fyrir í lok október.
Samningsaðilar gerðu samkomulag í mars 2020 um að fresta viðræðum um hálft ár og hefja þær á ný 1. október.
Verkalýðsfélögin settu í nóvember 2019 fram kröfu um 3% launahækkun. Megináhersla þeirra var á aukinn kaupmátt og sérstaka hækkun lægstu launa. Kröfugerðinni hefur ekki verið breytt.
Samningsmarkmið samtaka atvinnurekenda er að styrkja samkeppnishæfni fyrirtækjanna sem hefur laskast á árinu vegna kórónukreppunnar. Að mati þeirra verður tjón fyrirtækja langvarandi og óvíst um bata á næstunni.
Samtök atvinnurekenda töldu upphaflegu kröfugerðina óhóflega og nú skorti hana öll tengsl við veruleikann. Yfir 100 þúsund starfsmönnum hafi verið sagt upp störfum undanfarna mánuði og atvinnuleysið nálgist 10%. Þar við bætist dulið atvinnuleysi og starfsfólk á hlutabótum. Nú sé útlit fyrir að neikvæð áhrif heimsfaraldursins á atvinnustarfsemi vari lengur en áður var vonast til. Eðlilegt ástand komist ekki á fyrr en eftir a.m.k. eitt ár. Það muni ríða mörgum fyrirtækjum að fullu.
Í síðustu samningalotu kröfðust verkalýðsfélögin 2,8% launahækkunar og varð niðurstaðan 2,2%. Nú er útlit fyrir að niðurstaðan verði lægri en þá og ólíklegt að efnt verði til ófriðar.