Kjaraviðræður halda áfram (2)

Samtök atvinnulífsins munu funda með aðildarfélögum Alþýðusambands Íslands á næstunni í kjölfar þess að ASÍ sleit kjaraviðræðum við SA í gær. Enn er stefnt að því að ná samkomulagi um skammtímasamning en viðræðurnar færast nú yfir á vettvang aðildarsamtaka ASÍ. Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, segir í samtali við Morgunblaðið að hugmyndir ASÍ um hækkun launa hafi verið á pari við þær hækkanir sem komu til framkvæmda um síðustu áramót og að Samtök atvinnulífsins hafi ekki verið tilbúin til að samþykkja frekara verðbólguskrið. "Það er alveg ljóst að þessi aðferðafræði sem hefur verið farin síðastliðin sex ár er komin að endimörkum."

Þorsteinn bendir á að uppbygging kjarasamninga á undanförnum árum hafi í raun leitt af sér launaskrið. Hækkun lægstu launa sérstaklega um ákveðna krónutölu auk almennra hækkana hafi orsakað 5-6% almenna hækkun allra hópa og orsakað verðbólgu.

Í samtali við fréttastofu RÚV segir Þorsteinn að sú leið sem ASÍ hafi viljað fara í samningunum sé sú sama og hafi verið farin undanfarin ár með þekktum áhrifum á verðlag.

Að mati Samtaka atvinnulífsins er höfuðmarkmið í kjaraviðræðunum að gera kjarasamninga sem bæta lífskjör landsmanna með því að ná niður verðbólgu og vöxtum. Þannig er hægt að skapa jákvæðar aðstæður í efnahagslífinu til að örva fjárfestingu umtalsvert á næstu misserum og fjölga störfum verulega á vinnumarkaði. Það er besta leiðin til að auka kaupmátt heimilanna, efla atvinnulífið og bæta fjárhag ríkisins.

Kjarasamningarnir verða hins vegar að byggja á raunverulegri getu atvinnulífsins til að greiða laun. Verði samið um innistæðulausar launahækkanir mun það rýra lífskjör fólks, veikja atvinnulífið og auka verðbólgu ásamt því að hækka skuldir heimila og fyrirtækja sem eru mjög skuldsett og mega ekki við frekari verðbólguskotum.