Kjarasamningur um lífeyrismál
Í dag var gert samkomulag um breytingar á kjarasamningi Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins um lífeyrismál frá 12. desember 1995, en hann á uppruna sinn í samkomulagi frá árinu 1969.
Í samkomulaginu felst breyting á kafla kjarasamningsins sem fjallar um ársfundi, fulltrúaráð og stjórnir lífeyrissjóðanna á samningssviði aðila, auk skipan formlegs samráðsvettvangs um lífeyrismál.
Helstu nýmæli samkomulagsins varða skipan og samsetningu stjórnarmanna, uppstillingarnefndir tilnefningaraðila, hámarkssetu í stjórn, hæfisreglur og hagsmunaárekstur.
Hlutverk uppstillingarnefnda er að fjalla um hæfi einstaklinga sem gefið hafa kost á sér til stjórnarstarfa. Tilnefningaraðilar skulu óska eftir starfskröftum hæfra einstaklinga til með fjölbreytta reynslu og þekkingu t.d. varðandi lífeyrismál, kjarasamninga, stjórnun, áætlanagerð og reikningshald, lögfræðileg málefni og fjármálamarkað. Úr þessum hópi eru gerðar tillögur um þá sem hæfastir eru taldir í ljósi þeirra eiginleika sem sóst er eftir í viðkomandi stjórn.
Þá var einnig undirritaður kjarasamningur um lífeyrismál milli VR annars vegar og Samtaka atvinnulífsins og Félags atvinnurekenda hins vegar sem lýtur einvörðungu að Lífeyrissjóði verzlunarmanna (LÍVE) og kemur í stað kjarasamnings aðila frá 30.12. 1996.
Samningurinn er samhljóða kjarasamningi ASÍ og SA að öðru leyti en því að að stjórn LÍVE skal skipuð átta fulltrúum sem skipaðir skipaðir eru til tveggja eða fjögurra ára í senn að vali hvers samningsaðila. VR skipar fjóra, Samtök atvinnulífsins þrjá og Félag atvinnurekenda einn. VR tilnefnir einn varamann fyrir sína stjórnarmenn og að sama skapi tilnefna samtök atvinnurekenda einn varamann hvort fyrir sína stjórnarmenn. VR og samtök atvinnurekenda skulu hvor fyrir sig tryggja jafna kynjaskiptingu stjórnarmanna sem þeir skipa. VR skipar 25 fulltrúa í fulltrúaráð lífeyrissjóðsins, Samtök atvinnulífsins 23 og Félag atvinnurekenda tvo.
Lífeyrissjóðir á samningssviði aðila eru Birta lífeyrissjóður, Festa lífeyrissjóður, Gildi - lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður Rangæinga, Lífeyrissjóður verzlunarmanna, Lífeyrissjóður Vestmannaeyja og Stapi lífeyrissjóður