Kjarasamningarnir höfðu mikil áhrif á rekstur fyrirtækja
Í nýrri könnun Samtaka atvinnulífsins meðal aðildarfyrirtækja sinna kemur fram að síðustu kjarasamningar hafi haft mikil áhrif á rekstur ríflega 80% fyrirtækjanna, óháð því hvort þau starfa á útflutningsmarkaði eða heimamarkaði. Af fyrirtækjunum gripu 43% til almennrar hagræðingar í rekstri og 18% sögðu upp fólki vegna kjarasamninganna. Algengast var að fækkunin næmi 1-4 starfsmönnum, eða í 77% tilfella, 11% fækkuðu um 5-9, 6% fækkuðu um 10-19 og 6% fækkuðu um 20-40 starfsmenn.
Fyrirtækin voru flokkuð eftir því hvort þau stunda útflutning á vörum eða þjónustu, þ.m.t. ferðaþjónustu, þjónusta heimamarkað í samkeppni við innflutning eða heimamarkað í takmarkaðri samkeppni við innflutning.
Mikil áhrif
Spurt var um áhrif síðustu kjarasamninga á rekstur fyrirtækjanna. Heildarniðurstaðan var sú að 82% sögðu kjarasamningana hafa haft mikil áhrif, 8% lítil og 10% hvorki mikil né lítil.
86% útflutningsfyrirtækjanna sögðu kjarasamningana hafa haft mikil áhrif, 80% fyrirtækja á heimamarkaði í samkeppni við innflutning og 80% fyrirtækja í takmarkaðri samkeppni við innflutning.
Áhrif á starfsmannafjölda
Spurt var hvort síðustu kjarasamningar hefðu haft þau áhrif að fyrirtækið hefði fækkað starfsfólki á síðustu 12 mánuðum til að vega upp á móti auknum launakostnaði. Heildarniðurstaðan var sú að 18% höfðu fækkað starfsfólki vegna kjarasamninganna en 82% ekki gert það.
Í hópi fyrirtækja sem fækkuðu starfsmönnum vegna mikilla launahækkana í kjarasamningunum var algengast að fækkunin næmi 1-4 starfsmönnum, eða í 77% tilfella, 11% fækkuðu um 5-9, 6% fækkuðu um 10-19 og 6% fækkuðu um 20-40.
14% útflutningsfyrirtækjanna fækkuðu starfsfólki vegna kjarasamninganna, 24% fyrirtækja á heimamarkaði í samkeppni við innflutning og 19% fyrirtækja í takmarkaðri samkeppni við innflutning.
Almennar hagræðingaraðgerðir
Spurt var hvort fyrirtækin hefðu gripið til annarra hagræðingaraðgerða en fækkunar starfsfólks vegna aukins launakostnaðar á undanförnum 12 mánuðum. Heildarniðurstaðan var sú að 43% höfðu hagrætt í rekstri vegna kjarasamninganna en 57% ekki.
47% útflutningsfyrirtækjanna hagræddu í rekstri vegna kjarasamninganna, 40% fyrirtækja á heimamarkaði í samkeppni við innflutning og 41% fyrirtækja í takmarkaðri samkeppni við innflutning.
Um könnunina
Könnunin var gerð dagana 17.-26. ágúst meðal aðildarfyrirtækja Samtaka atvinnulífsins. 357 svör bárust og voru 54% svara frá fyrirtækjum innan SI, 19% SAF, 15% SVÞ, 7% SFS, 3% SFF og Samorku 2%. Hjá fyrirtækjunum sem svöruðu starfa 24.000 manns eða sem svarar 20% af starfsfólki á almenna vinnumarkaðnum.
Fyrirtækin voru flokkuð eftir því hvort þau stunda útflutning eða þjónustu við innanlandsmarkað. Fyrirtækin skiptust þannig að 34% stunda útflutning, þ.m.t. ferðaþjónustu, 21% starfa á innanlandsmarkaði í samkeppni við innflutning og 45% starfa á innanlandsmarkaði í takmarkaðri samkeppni við innflutning. Auk annars var spurt hvort fyrirtækin hefðu fækkað starfsfólki vegna kjarasamninganna eða gripið til annarra hagræðingaraðgerða vegna aukins launakostnaðar.
Tengt efni:
Gengi krónunnar, vextir Seðlabankans og hrávöruverð skipta miklu í rekstri fyrirtækja