Kaupmáttaraukning heils áratugar tekin út á einu ári

Frá því að skrifað var undir kjarasamninga í maí 2015 hefur kaupmáttur aukist um 15%. Það er fáheyrt því í áratugi hefur kaupmáttur launa að jafnaði aukist um 1,0 - 1,5% á ári sem er nokkurn veginn takt við aukningu framleiðni. Á þessu rúma eina og hálfu ári sem liðið er af samningstímanum hefur kaupmáttur launa aukist tífalt meira en að jafnaði mætti búast við. Ástæðan? Styrking krónunnar.

Í gær náðist samkomulag milli ASÍ og SA að kjarasamningar aðila gildi óbreyttir áfram. Samningarnir frá miðju ári 2015 gilda til ársloka 2018 og eru með endurskoðunarákvæði ár hvert. Mikilvægast þeirra er að samningar á almenna markaðnum marki stefnu fyrir aðra kjarasamninga, bæði á almennum markaði og hjá hinu opinbera. Þetta er til að kjarasamningar SA og aðildarsamtaka ASÍ verði ekki stökkbretti fyrir aðra kjarasamninga og komi af stað keðjuverkun kauphækkana. Þetta hefur ekki tekist. Fyrir ári voru gerðar verulegar breytingar á kjarasamningum SA og ASÍ á grundvelli endurskoðunarákvæðisins til að bregðast við úrskurði gerðardóms í deilum BHM og ríkisins.

Að þessu sinni brugðust forsendur vegna kjarasamninga Félags grunnskólakennara og tónlistarskólakennara við Samband íslenskra sveitarfélaga en launahækkanir í þeim voru langt umfram það sem fólst í öðrum kjarasamningum. Á þremur árum, frá nóvember 2013 til nóvember 2016, hefur kaupmáttur launa grunnskólakennara aukist um 37% en 19% á almennum vinnumarkaði. Það er ekki til þess fallið að stuðla að almennri sátt um kjaraþróun og stöðugleika.

Flestir bera skynbragð á að lífskjarabati fólks felst í auknum kaupmætti tekna en ekki hækkun krónutalna. Ef krónutölurnar væru mælikvarðinn væru Íslendingar margfaldir heimsmeistarar í lífskjarabata. Það er því sérstakt, svo vægt sé til orða tekið, að komið hafi til greina að segja upp kjarasamningum þorra launafólks þegar kaupmáttur launa hefur aukist meira en dæmi eru um á síðari tímum.

Skýringarnar á feykilegri kaupmáttaraukningu liggur í óvenju miklum kauphækkunum kjarasamninga en þó fyrst og fremst í styrkingu gengis krónunnar sem hefur haldið verðbólgu niðri þátt fyrir miklar innlendar kostnaðarhækkanir. Frá gerð kjarasamninganna í maí 2015 hefur meðalgengi krónunnar styrkst um 25%. Styrkingin gagnvart dollar er 20%, evru um 24% og pundi um 36%. Ekkert lát er á þessari þróun og spekingar eru á því að svo haldi áfram um hríð.

Vandinn við gengisþróunina er að verulega kreppir að fyrirtækjum í alþjóðlegri samkeppni og erfiðleikar blasa við í rekstri margra fyrirtækja. Það þarf ekki mikið innsæi eða þekkingu á íslenskri hagsögu til að sjá endinn fyrir, að gengi krónunnar fellur. Allir tapa.

Til þess að koma í veg fyrir harkalega niðursveiflu er nauðsynlegt að stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins marki ábyrga stefnu til lengri tíma sem festi í sessi þann árangur sem náðst hefur með breytingu á peningastefnu, fullu afnámi gjaldeyrishafta, lækkun vaxta, aðhaldi og verulegum afgangi á rekstri hins opinbera og tryggi þannig að útflutnings- og samkeppnisfyrirtækin öðlist að nýju ásættanleg rekstrarskilyrði. Gangi það ekki eftir er voðinn vís. Endurtekið efni úr hagsögu Íslands.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Leiðari fréttabréfsins Af vettvangi í febrúar 2017