Kakan minnkar á meðan karpað er
Hvar liggja mörkin í skattheimtu? Áhrif á fólk og fyrirtæki var yfirskrift fundar Deloitte, Samtaka fjárfesta, Kauphallarinnar og Samtaka atvinnulífsins sem fram fór 21. október sl. Skattastefna stjórnvalda var harðlega gagnrýnd á fundinum og hún beinlýnis sögð skaðleg. Vilhjálmur Bjarnason, framkvæmdastjóri Samtaka fjárfesta, velti því upp hvort ekki væri orðið tímabært að stofna samtök skattborgara en hann líkti eignaskattsstefnu stjórnvalda við eignaupptöku.
Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar (NASDAQ OMX Iceland), sagði í sínu erindi að það gleymist oft að breytingar á skattprósentum geti haft bein áhrif á skattstofna. Kakan geti minnkað eða stækkað við skattlagningu. Páll sagðist hræddur um að íslenska skattakakan hafi minnkað all verulega síðustu árin. Allur krafturinn fari nú í að hugsa um skiptingu kökunnar en ekki stærð hennar. Þegar of langt væri seilst í skattheimtu, t.d. á fjárfestingu í skráðum félögum, geti það haft neikvæð áhrif.
Þá fjallaði Páll um möguleikann á að taka upp skattaafslátt til almennings á ný til að styðja við uppbyggingu hlutabréfamarkaðar á Íslandi. Það veiti fólki tækifæri til að taka þátt í uppsveiflunni og minnki togstreitu milli viðskiptalífsins og almennings. Virkur íslenskur hlutabréfamarkaður sé auk þess mjög mikilvægur til að byggja upp ný íslensk sprotafyrirtæki líkt og átti sér stað í tilvikum Actavis, Marel og Össurar. Þessi fyrirtæki eigi heimilum landsins og þátttöku almennings á hlutabréfamarkaði mikið að þakka.
Vala Valtýsdóttir, sviðsstjóri skatta- og lögfræðisviðs Deloitte, sagði skattlagningu vaxtatekna erlendra fyrirtækja á Íslandi skýlaust brot á EES-samningnum og allt umhverfi hér á landi fyrir erlendar fjárfestingar sé mun flóknara en þekkist í nágrannalöndunum. Vala sagði það ekki rétt sem stjórnmálamenn haldi fram á tyllidögum, að skattar hér á landi séu lægri en í nágrannalöndum okkar, það sé goðsögn.
Guðmundur Thorlacius Ragnarsson, lögfræðingur hjá Arion banka, fjallaði um brotalöm við framkvæmd hækkunar á hlutfalli fjármagnstekjuskatts. Sagði hann það umhugsunarefni hversu upplýsingagjöf skattayfirvalda vegna fjölmargra breytinga á skattkerfinu sé áfátt. Oftar en ekki sé ráðist í flóknar breytingar, m.a. að kröfu Alþingis, sem erfitt sé að hrinda í framkvæmd svo vel eigi að vera.
Í umræðum sagði Páll Harðarson að honum virtist sem gæðum lagasetningar væri að hraka á Íslandi, þingheimur væri að hans mati oft búinn að taka ákvörðun um niðurstöður áður en aðilar væru kallaðir til samráðs. Oft væri gengið framhjá skynsömum ábendingum, t.d. úr atvinnulífinu.
Á fundinum kom einnig fram í umræðum að einföldu og gegnsæju skattkerfi hafi verið fórnað og flókið óskilvirkt kerfi tekið upp í staðinn og það hindri nauðsynlega endurreisn atvinnulífsins og hamli hagvexti.
Glærur frummælenda:
Vilhjálmur Bjarnason, framkvæmdastjóri Samtaka fjárfesta (PDF)
Páll Harðarson, forstjóri NASDAQ OMX Iceland (PDF)
Guðmundur Thorlacius Ragnarsson, lögfræðingur hjá Arion banka (PDF)
Vala Valtýsdóttir, sviðsstjóri skatta- og lögfræðisviðs Deloitte. (PDF)
Fundarstjóri var Benedikt Jóhannesson, framkvæmdastjóri Talnakönnunar
Umfjöllun fjölmiðla:
RÚV: EES-samningur brotinn venga mismununar í skattlagningu
RÚV: Skattheimta veldur verulegum skaða
Fréttablaðið: Brotið á erlendum fyrirtækjum