Kærkomin vaxtalækkun

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands tilkynnti 0,25% vaxtalækkun í morgun. Var lækkunin í takt við væntingar SA enda sterk rök fyrir vaxtalækkun, eins og fram kom í ítarlegri greiningu SA fyrir síðustu helgi. Ákvörðunin í morgun hefur takmörkuð áhrif en sem fyrsta skref í vaxtalækkunarferli er hún tímabær þótt fyrr hefði verið.

Það er óumdeilt að á tímum góðæris er peningastefnunni ætlað að vera aðhaldssöm. Raunvextir á Íslandi eru meðal þeirra hæstu í heimi og aðhaldið því nægjanlegt og rúmlega það. Krónan hefur styrkst um 4% milli vaxtaákvörðunarfunda og það hefur dregið úr verðbólguþrýstingi að mati nefndarinnar. Samfara lágri verðbólgu hefur aðhald peningastefnunnar aukist og skapaði það svigrúm til vaxtalækkunar að þessu sinni.

Frá því verðbólgumarkmiði var náð í ársbyrjun 2014 hefur Seðlabankinn kerfisbundið spáð meiri verðbólgu en raunin hefur verið. Í morgun var ný verðbólguspá Seðlabankans birt og kemur ekki á óvart að bankinn lækkar spána og gerir nú ráð fyrir að verðbólga verði undir markmiði fram á seinni hluta ársins 2018.

Nefndarmenn hafa augljóslega áhyggjur af vaxandi spennu í þjóðarbúskapnum og kemur það skýrt fram í yfirlýsingu nefndarinnar þar sem fjórum sinnum eru nefndar áhyggjur hennar af vaxandi spennu í hagkerfinu. Það sem hefur hins vegar komið á óvart í núverandi uppsveiflu ólíkt þeim sem áður hafa komið er að samfara kröftugum hagvexti þá hefur þjóðhagslegur sparnaður einnig verið að aukast og er sögulega hár um þessar mundir. Enn eru engin teikn á lofti um aukna skuldsetningu þjóðarbúsins.

Vaxtamunur við útlönd skiptir máli
Annar þáttur sem skiptir ekki síður máli við vaxtaákvarðanir er vaxtamunur við útlönd. SA telja að umræða um vaxtamuninn fái ekki nægilegt rými í yfirlýsingu peningastefnunefndar. Mikill vaxtamunur við útlönd skapar augljósan vanda, sem Seðlabankinn hefur reynt að girða fyrir með höftum á innflæði fjármagns. Þó sú aðgerð hafi dregið úr hefðbundnum vaxtamunarviðskiptum hefur á sama tíma annað innflæði, sem ekki má rekja til utanríkisviðskipta, sett aukinn þrýsting á gengi krónunnar.

Hættan sem getur skapast af verulegri styrkingu krónunnar er öllum ljós og ef ekki er innistæða fyrir slíkri styrkingu myndast svikalogn. Vaxtalækkunin í morgun er löngu tímabær og vonandi liður í því ferli að minnka vaxtamun við útlönd.

Tengt efni:

Sterk rök hníga að lækkun vaxta