Jákvæð þróun á vinnumarkaði
Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir fjölgun starfa á milli ára staðfestingu á kröftugum og miklum bata í hagkerfinu og að kreppan sé komin í baksýnisspegilinn. Fyrirtæki hafi aukið svigrúm til fjárfestinga og farið sé að bera á skorti á starfsfólki. Samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar sem birt var í vikunni eru störf á öðrum ársfjórðungi þessa árs 3.200 fleiri en á sama tímabili í fyrra, sem er fjölgun starfa um 1,8 prósent milli ára. Á öðrum ársfjórðungi þessa árs voru 178.700 manns starfandi á vinnumarkaðnum, 74,6 prósent af starfhæfum konum og 81,8 prósent af starfhæfum körlum.
Þorsteinn Víglundsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar þetta batamerki í atvinnulífinu en einnig var fjallað um málið á Vísi.
„Það er enginn vafi á að þetta er enn ein staðfestingin á því að við erum að sjá mjög kröftugan og góðan bata í hagkerfinu.Við sjáum að störfum er að fjölga verulega milli ára. Þetta er í raun og veru framhald á mjög jákvæðri þróun sem verið hefur á vinnumarkaði undanfarin misseri,“ segir Þorsteinn. Efnahagslífið sé komið í kröftuga uppsveiflu og því óhætt að fullyrða að Íslendingar hafi skilið kreppuna eftir að baki sér.
„Viðfangsefni okkar hafa á skömmum tíma breyst mjög mikið, frá því að þurfa að örva hagkerfið í að þurfa frekar að hafa hæfilegar áhyggjur af því að vaxa ekki of hratt,“ segir Þorsteinn. Það sé gleðilegt viðfangsefni að þurfa að gæta þess að ganga hægt um gleðinnar dyr en horfur séu á mjög góðu ári í atvinnulífinu.
„Við erum að sjá mjög lága verðbólgu þrátt fyrir þennan mikla vöxt. Við erum að sjá mikla aukningu kaupmáttar milli ára og mikinn bata í lífskjörum landsmanna almennt.“ Þorsteinn bendur á að ferðaþjónustan hafi dregið vagninn síðustu ár og misseri en nú séu skýr merki um almennan bata. Skuldsetning fyrirtækja hafi minkað og svigrúm þeirra þar af leiðandi aukist. En atvinnuleysi er engu að síður enn nokkuð samkvæmt könnun Hagstofunnar, eða um 6 prósent.
„Ég held að það megi reikna með því að við sjáum áframhaldandi minnkun atvinnuleysis. Við erum að nálgast það að vera komin í ágætis jafnvægisástand með vinnumarkaðinn. Við sjáum að fleiri fyrirtæki eru farin að bera því við í okkar könnunum að það sé skortur á starfsfólki. Þannig að við erum að þokast örugglega í rétta átt.“
Reykjavík síðdegis á Bylgjunni ræddi einnig við Þorstein um batamerkin í atvinnulífinu og má hlusta á viðtalið hér að neðan. Þar sagði Þorsteinn m.a. að það væri ástæða til hóflegrar bjartsýni en umtalsverður kraftur væri kominn í efnahagslífið.
Tengt efni:
Umfjöllun í hádegisfréttum Bylgjunnar – smelltu til að hlusta
Vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar
Viðtal við framkvæmdastjóra SA í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni