Jákvæð merki en hættur til staðar

Vísbendingar hafa komið fram um betri tíð í atvinnulífinu en ýmislegt veldur þó áhyggjum. Störfum fjölgaði um 4.700 frá maí 2011 til jafnlengdar 2012. Skráð atvinnuleysi hjá Vinnumálastofnun nam 5,6% af mannafla í maí og hefur ekki verið lægra frá því atvinnuleysi náði hámarki eftir bankahrunið. Tekjur ríkissjóðs fyrstu fjóra mánuði ársins voru vel yfir áætlun og 16% hærri en á sama tíma í fyrra. Þetta eru allt jákvæðar vísbendingar um betri horfur í efnahags- og atvinnumálum en búist var við.

Áhyggjuefni er að batinn virðist vera neysludrifinn frekar en framleiðsludrifinn. Farsælasta leiðin út úr efnahagserfiðleikunum felst í auknum fjárfestingum í atvinnulífinu og meiri útflutningi. Það leggur grunn að varanlegum lífskjarabata. Fjárfesting í atvinnulífinu hefur vissulega aukist en hlutfall fjárfestingar af landsframleiðslu hefur hvergi nærri náð því að vera ásættanlegt. Sjávarútvegur og ferðaþjónusta hafa leitt vöxt í útflutningi með góðri loðnuvertíð og fleiri ferðamönnum og útflutningsgreinar ganga almennt mjög vel. Því ættu öll skilyrði að vera til þess að útflutningsfyrirtæki fjárfesti mun meira en raun ber vitni.

Hagvöxtur knúinn af einkaneyslu leiðir okkur á gamalkunnar slóðir ef aukinn útflutningur og aukin fjárfesting í útflutningsgreinunum helst ekki í hendur við aukna neyslu. Af þeim 4,5% hagvexti sem mældist á 1. fjórðungi ársins verður einungis 0,8% rakið til aukinna utanríkisviðskipta og framlag fjárfestingar nam 1,2% af vextinum. Þannig myndast ekki nauðsynlegur afgangur í viðskiptum við útlönd, þrýstingur verður á hækkun verðlags og lækkun gengis. Gengi krónunnar hefur reyndar verið að styrkjast undanfarna mánuði eftir töluverða veikingu frá fyrra hausti en gera má ráð fyrir að gengið lækki á ný þegar líða tekur á næsta haust. Verðbólga er allt of mikil og hætta á að  hún festist í a.m.k. 5% verðbólgu. Verðhækkanir í síðustu mælingu Hagstofunnar í júní voru of miklar, eða 0,5%, og verðlag er nú þegar 3,7% hærra en í desember sl.

Laun hafa einnig hækkað umfram það sem samið var um í kjarasamningunum þann 5. maí 2011. Launavísitalan í maí 2012 var 3,5% hærri en í desember 2011 en raunverulegar launahækkanir voru töluvert meiri, eða 5,0%, þar sem áhrif eingreiðslna kjarasamninga féllu brott á tímabilinu. Launahækkanir umfram kjarasamninga eru áhyggjuefni, ekki síst vegna þess að þeir voru dýrir fyrir atvinnulífið og gagnrýndir á þeim forsendum, m.a. af Seðlabanka Íslands. Væntanlega má rekja hluta þessara hækkana til innra ójafnvægis milli atvinnugreina og fyrirtækja sem stafar af lágu gengi krónunnar.

Aðilar vinnumarkaðarins huga sífellt að framgangi þeirra forsendna sem lágu til grundvallar kjarasamningum 5. maí 2011 en mat á forsendum  þeirra er framundan í lok janúar á næsta ári. Forsendur samninganna eru þær að vísitala neysluverðs hækki ekki um meira en 2,5% milli desembermánaða 2011 og 2012, að gengisvísitala komist í 190 og að launavísitala hækki umfram verðlag milli desembermánaða 2011 og 2012. Þá fylgdi kjarasamningunum yfirlýsing um að ákveða ætti hvernig staðið yrði að hækkun iðgjalds í almenna lífeyrissjóði úr 12% í 15,5% á árunum 2014 - 2020 sem væri liður í samræmingu lífeyrisréttinda fyrir allan vinnumarkaðinn.

Meginforsenda kjarasamninganna um kaupmátt mun líklega halda. Launavísitalan hækkaði um 0,35% í maí sl. sem er mikið í ljósi þess að hækkunin verður ekki rakin til kjarasamninga. Óvarlegt er að gera ráð fyrir öðru en að einhverjar launahækkanir umfram kjarasamninga haldi áfram en hækkanir bæði launa og verðlags undanfarið samræmast illa efnahagslegum stöðugleika og varanlegum lífskjarabata.

Samræming lífeyrisréttinda fyrir allan vinnumarkaðinn er þjóðþrifamál sem þyrfti að fá framgang eins og samið var um í kjarasamningunum í maí 2011. Nefnd hefur starfað með þátttöku helstu aðila almenna vinnumarkaðarins og hins opinbera. Komið hefur fram í nefndarstarfinu að sýn á skynsamlegt lífeyriskerfi til framtíðar er ekki ósvipuð milli aðila. Hins vegar sér ekki fyrir endann á því hvernig ríki, sveitarfélög og opinberir starfsmenn ætla að ná niðurstöðu um hvernig bregðast skuli við gífurlegum halla á lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna. Niðurstaða í því er lykilþáttur í því hvort tekst að samræma lífeyrisréttindi fyrir allan vinnumarkaðinn með viðunandi hætti.

Þótt einhverjar af forsendum kjarasamninga muni ekki halda þegar aðilar fara yfir þær í lok janúar á næsta ári yrði uppsögn þeirra mikið ólán. Engum er greiði gerður með þeirri ólgu sem það myndi valda í aðdraganda kosninga til Alþingis. Afstaða samninganefndar ASÍ skýrist væntanlega ekki fyrr en lengra líður á árið en ljóst er að of mikil verðbólga og lágt gengi krónunnar er sameiginlegt vandamál aðila vinnumarkaðarins sem ekki verður leyst með frekari launahækkunum en þegar hefur verið samið um.

Vilhjálmur Egilsson

Fréttabréf SA: Af vettvangi í júlí 2012