Íslensk orka sparar landsmönnum tugi milljarða á ári

Með því að nýta endurnýjanlegar orkulindir Íslands, spara Íslendingar sér tugi milljarða króna á hverju ári. Á ráðstefnunni Orkulindin Ísland sagði Guðmundur Þóroddsson, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, að með því að nýta heitt vatn til að hita upp híbýli landsmanna spöruðu Íslendingar sér allt að 25 milljarða króna á hverju einasta ári sem að öðrum kosti hefðu farið í olíuinnflutning. Sagði Guðmundur að ef horft væri til markaðssvæðis Orkuveitu Reykjavíkur næmi sparnaðurinn allt að 15 milljörðum króna á ári.

Vegna nýtingar landsmanna á vatnsafli og jarðvarma þurfa Íslendingar ekki á olíu að halda til að hita upp hýbýli sín og spara því þar með gríðarlega fjármuni ár hvert svo ekki sé talað um jákvæð áhrif á umhverfið sem nýting á orkulindum Íslands hefur haft í för með sér með minni olíunotkun. Guðmundur fullyrti á ráðstefnunni að orkuiðnaðurinn og þekking sem í honum er fólgin væri undirstaða lífskjara hér á landi og velti þeirri spurningu upp hvort fólk hefði gert sér grein fyrir því að nýta þyrfti nokkra fiskistofna hér við land til að afla gjaldeyris til olíuinnflutnings ef ekki kæmi til nýting íslenskra orkulinda.