Íslendingar í kjörstöðu
Íslendingar eru nú í kjörstöðu til að sækja fram á mörgum sviðum og hagur heimilanna getur haldið áfram að batna á næstu árum. Það er mikilvægt að grípa tækifærin í stað þess að glutra þeim niður með innbyrðis sundrungu eins og samfélagsástandið einkennist af.
Ríkið fyrirferðarmikið
Ítrekað hefur komið fram að framleiðni sé lakari á Íslandi en í nálægum löndum, sérstaklega þegar litið er til þjónustu, en aukin framleiðni er forsenda þess að lífskjör geti haldið áfram að batna. Þetta felur í sér fjölmargar áskoranir.
Ríki og sveitarfélög reka umfangsmikla þjónustu á mörgum sviðum og eru nánast í einokunarstöðu þegar kemur að menntakerfi, heilbrigðisþjónustu, orkuvinnslu og veitustarfsemi. Auk þess er ríkið komið með ríflega 70% af bankakerfinu í fangið og er fyrirferðarmikið á fjölmiðlamarkaði.
Samkeppnishindranir
Þessi gríðarmiklu umsvif hins opinbera leiða til samkeppnishindrana þar sem nýjum aðilum er gert erfitt um vik að hefja starfsemi, miðstýring er mikil, nýjungar eiga erfitt uppdráttar og framleiðni er minni en ef samkeppni ríkti á þessum sviðum.
Sýnt hefur verið fram á að skilvirkni er meiri hjá einkareknum en opinberum heilsugæslustöðvum. Rannsóknir sýna að námsárangur batnar við aukið sjálfstæði skóla og einnig með árangurstengingu launa. Það er því til mikils að vinna með aukinni samkeppni og frjálsræði á þessum sviðum.
Skuldir lækki um þriðjung
Ríkið getur einnig greitt töluverðan hluta skulda sinna með sölu ríkiseigna. Þar má nefna banka, Keflavíkurflugvöll, Íslandspóst, vínbúðirnar og orkufyrirtæki. Með hóflegri sölu gætt ríkið greitt um þriðjung af skuldum sínum og lækkað vaxtabyrði ríkissjóðs samsvarandi.
Því miður bendir margt til þess að Íslendingar stefni í þveröfuga átt og muni endurtaka fyrri mistök með meiri haftabúskap, einangrunarhyggju, miðstýringu, reglubyrði og höftum. Sú stefna mun einungis leiða til ófarnaðar og valda versnandi lífskjörum almennings.
Ríkið hörfi
Það er nauðsynlegt að draga úr ríkisrekstri, opna markaði og auka samkeppni til þess að bæta framleiðni og auka samkeppnishæfni hagkerfisins. Losa verður gjaldeyrishöft sem fyrst svo Íslendingar geti á ný fjárfest erlendis eins og íbúar annarra þjóða.
Við losun hafta verður að gæta þess að ekki verði innleidd annars konar höft sem verði jafn skaðleg og gjaldeyrishöftin. Það er mikilvægt til að lífeyrissjóðir og aðrir fjárfestar geti dreift áhættu sinni og að íslensk fyrirtæki geti byggt upp starfsemi erlendis þar sem þau geta nýtt sérstöðu sína og aflað nýrra viðskipta.
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA.