Íslendingar húða tilskipanir ESB með gulli
Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins telja allt of langt gengið í frumvarpi um breytingar á lögum um mat á umhverfisáhrifum – mun lengra en þörf er á samkvæmt tilskipun ESB. Í umsögn samtakanna til Alþingis er bent á að verði frumvarpið samþykkt muni leyfisveitingar flækjast, tími lengjast sem tekur að fá leyfi, kærum fjölga og kostnaður við framkvæmdir aukast. Samtökin benda á að þessu sé vel lýst í greinargerð með frumvarpinu en umhverfis- og auðlindaráðuneytið leggur til að nánast allar framkvæmdir í landinu verði tilkynningarskyldar.
Að mati SA og SI er frumvarpið gott dæmi um hvernig tilskipanir ESB eru gullhúðaðar hér á landi (e. goldplating). Í kjölfar athugasemda EFTA er brugðist við með því að ganga mun lengra en ESB gerir kröfur um enda fjalla lögin um mat á umhverfisáhrifum einungis um framkvæmdir sem kunna að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif.
Einn angi þess ef frumvarpið verður að lögum er að enn mun fjölga málum á borði kærunefndar umhverfis- og auðlindamála. Nefndin birti tilkynningu á vef sínum í janúar sl. um að ekki væri unnt að afgreiða mál innan lögbundins frests sökum mikilla anna. Þetta er óviðunandi.
Í frumvarpinu er lagt til að byggja upp sérstakan nýjan gagnagrunn um allar framkvæmdir í landinu. Ekkert kemur fram um það til hvers eigi að nota gagnagrunninn, hver kostnaður við hann geti orðið né hvernig hann skuli fjármagnaður. Samtökin telja þennan grunn óþarfan og leggja til að umrædd ákvæði verði ekki að lögum.
Sjá nánar umsögn SA og SI til Alþingis