Ísland og markmið Kyoto-bókunarinnar
Ítrekað hafa komið fram á undanförnum vikum áhyggjur manna vegna þess að hugsanlega muni útstreymi gróðurhúsalofttegunda á Íslandi verða umfram þau mörk sem heimiluð eru samkvæmt Kyoto-bókuninni við loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna. Þó hefur verið sýnt fram á það að Íslendingar standa einna best að vígi vestrænna þjóða við að ná settu marki skv. Kyoto-bókuninni. Stjórnvöld hafa einnig sýnt fram á að útstreymi samkvæmt íslenska ákvæðinu við Kyoto-bókunina verði innan leyfilegra marka að meðaltali á árinu 2008 til 2012.
Engin ástæða er til að ætla annað en að þetta geti allt gengið eftir en þótt svo væri ekki og í ljós geti komið af einhverjum ástæðum að þrátt fyrir allt þurfi að grípa til sérstakra ráðstafana til að uppfylla þessar þjóðréttarlegu skuldbindingar sem ríkið hefur tekið á sig þá er ýmislegt sem unnt er að gera til að uppfylla skuldbindingarnar.
Verkefni til að draga úr útstreymi innanlands
Í fyrsta lagi er unnt að grípa til ráðstafana til að draga úr útstreymi innanlands. Þróunin hefur verið sú á undanförnum árum að dregið hefur úr almennu útstreymi frá atvinnulífinu með aukinni hagræðingu í fiskveiðum og fiskimjölsverksmiðjum og á fleiri sviðum. Útstreymi á hvert tonn í álframleiðslu hefur einnig dregist mikið saman og í kröfum sem uppfylla þarf vegna nýrrar stóriðju er gerð krafa um að beitt verði bestu fáanlegri tækni til að halda útstreymi í lágmarki. Stöðugt eykst hins vegar útstreymi frá samgöngum og hér geta stjórnvöld lagt mikið af mörkum með því að tryggja að samgöngur séu greiðar, leiðir stuttar og að hvatt verði til notkunar sparneytinna farartækja. Með almennum upplýsingum og fræðslu má einnig hvetja almenning og fyrirtæki til að sýna þessum málum áhuga og draga úr útstreymi.
Í öðru lagi er unnt að auka bindingu kolefnis hér á landi með landgræðslu og skógrækt. Landvernd hefur gefið út skýrslu þar sem sýnt er fram á að með hóflegum aðgerðum má auka kolefnisbindingu sem svarar til mörg hundruð þúsund tonna á ári af gróðurhúsalofttegundum og dregst það frá öðru útstreymi og hjálpar til við að standa við skuldbindingar gagnvart loftslagssáttmálanum.
Heimilda aflað erlendis
Í þriðja lagi er gert ráð fyrir því í Kyoto-bókuninni að ríki geti aflað sér útstreymisheimilda með því að standa fyrir verkefnum í þróunarríkjunum. Þar er átt við að með því að draga ur útstreymi gróðurhúsalofttegunda í þróunarríki er unnt með samþykki stjórnvalda í ríkinu þar sem verkefnið er unnið og með samþykki skrifstofu loftslagssamningsins að fá samsvarandi heimildum til losunar bætt við þær heimildir sem iðnríkið hefur fengið samkvæmt Kyoto-bókuninni. (CDM-Clean Development Mechanism). Ekki verður betur séð en að þau verkefni sem Íslendingar standa fyrir um jarðhita og orkuvinnslu víða um heim falli ágætlega að þessum flokki en víst er að ef stjórnvöld hér á landi hafa ekki hug á að afla heimilda með þessum hætti þá gerist ekkert vegna þess að atvinnulíf og einkafyrirtæki hafa engan aðgang að skrifstofu loftslagssamningsins. Heimildirnar geta hins vegar nýst íslenskum fyrirtækjum í öðrum löndum. Þess má geta að þær heimildir sem aflað er með þessum hætti eru miklu ódýrari en verð á útstreymisheimildum sem ganga kaupum og sölum vegna útstreymistilskipunar ESB. Mörg ríki í Evrópu hafa þegar lagt töluvert fé til þess að afla heimilda með þessari aðferð og hafa sett upp skipulagt kerfi til að afla þeirra.
Í fjórða lagi er gert ráð fyrir því að unnt sé að afla heimilda frá fyrrum austantjaldsríkjum sem einnig hafa tekið á sig skuldbindingar samkvæmt Kyoto-bókuninni. Þar eru útstreymisheimildir gjarnan mjög rúmar vegna samdráttar í efnahagskerfum þeirra á síðasta áratug 20. aldarinnar. Með því að ráðast í verkefni sem draga úr útstreymi eða hafa sambærileg áhrif er unnt að fá heimildir fluttar á milli landa (JI-Joint Implementation) á svipaðan hátt og með verkefnum í þróunarríkjum.
Nefna má sem dæmi að finnska ríkið hóf þegar á árinu 1999 þáttöku í alþjóðlegum tilraunaverkefnum til að öðlast reymslu af CDM og JI verkefnum. Ætlunin er að þessi verkefni skapi Finnum 2 milljónir tonna af CO2 ígildum á tímabilinu 2008-2012. Að auki hafa finnsk stjórnvöld ákveðið að halda áfram þessu verkefni og afla til viðbótar 10 milljón tonn af CO2 ígildum fyrir sama tímabil.
Það er eðlilegt að stjórnvöld kanni þá möguleika sem til staðar kunna að vera til að afla útstreymisheimilda erlendis frá og kanni kosti þess og galla að ráðast í verkefni til bindingar kolefnis hér á landi. Fyrirhyggja skaðar ekki.
Upplýsingar um finnsk verkefni er að finna á heimasíðu finnska utanríkisráðuneytisins.