Innflutningur á fersku kjöti verði heimilaður
Samtök atvinnulífsins og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafa skilað jákvæðri umsögn um frumvarpsdrög sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem heimila munu innflutning á fersku kjöti og telja mikilvægt að frumvarpsdrögin verði að lögum sem fyrst.
Í umsögninni segir að hindranalaus frjáls viðskipti hafi ætíð reynst Íslendingum vel, aukið hagvöxt og velferð alls almennings. Svo muni einnig verða með frjáls viðskipti með matvæli.
Meginatriði löggjafarinnar er að ekki er lengur greint á milli sjávarafurða, búfjárafurða og annarra matvæla heldur gilda í meginatriðum sömu kröfur um framleiðslu matvæla. Þetta tryggir jafnari samkeppnisstöðu íslenskrar matvælaframleiðslu gagnvart framleiðslu á EES svæðinu.
Samtökin styðja stefnu stjórnvalda um svokallaðar viðbótartryggingar vegna hættu á salmonellusmiti. Eðlilegt er að efla markaðseftirlit sem nái jafnt til innlendra matvæla og erlendra. Jafnframt er mikilvægt að efla áhættumat.
Í umsögninni segir um þetta: „Samtökin styðja stefnu stjórnvalda um svokallaðar viðbótartryggingar vegna hættu á salmonellusmiti. Jafnframt er eðlilegt að markaðseftirlit sé eflt og nái jafnt til innlendra matvæla og erlendra.“
„Samtökin telja að í þeim mótvægisaðgerðum sem frumvarpsdrögin gera ráð fyrir felist afar mikilvægar varnir og verður að tryggja að þeim verði unnt að framfylgja og að slíkt verði sannanlega gert.“
Ennfremur segir í umsögninni um gildi aðildar að EES-samningnum: „Í þann aldarfjórðung sem Ísland hefur verið aðili að Evrópska efnahagssvæðinu hafa flestar atvinnugreinar hér á landi búið við frjálst flæði vöru og þjónustu.“
„Á EES-svæðinu öllu gilda samræmdar tæknilegar reglur og staðlar, þar sem lögð er áhersla á að framleiðandi (þjónustuveitandi) ábyrgist að varan (þjónustan) uppfylli settar kröfur og viðmið. Þegar það liggur fyrir er varan í frjálsu flæði á öllu EES-svæðinu og markaðurinn orðinn miklu stærri en heimamarkaður í hverju ríki. Eftirlit á svæðinu er svo markaðseftirlit þar sem fylgst er með því að varan sé með nauðsynlegum merkingum sem staðfesta að kröfur séu uppfylltar ásamt hugsanlegum stikkprufuathugunum ef grunur vaknar um eitthvað misjafnt.
Með frumvarpsdrögunum er verið að tryggja að matvæli njóti sömu stöðu og aðrar vörur, þ.e. að vera í frjálsu flæði á öllu svæðinu að uppfylltum settum kröfum en falla jafnframt undir markaðseftirlit.“
„Meginatriði löggjafarinnar er að ekki er lengur greint á milli sjávarafurða, búfjárafurða og annarra matvæla heldur gilda í meginatriðum sömu kröfur um framleiðslu matvæla. Þetta tryggir jafnari samkeppnisstöðu íslenskrar matvælaframleiðslu gagnvart framleiðslu á EES svæðinu og skapar fyrirtækjum aukna möguleika til að flytja inn hráefni til framleiðslu sinnar, aukna möguleika til nýsköpunar, vöruþróunar og almennra viðskipta. Að auki greiðir löggjöfin leið heilnæmra íslenskra landbúnaðarafurða á innri markaðinn í Evrópu.“
Sjá nánar: