Innanlandsflug í hættu vegna mikilla skattahækkana

Bogi Nils Bogason, framkvæmdastjóri fjármála Icelandair Group, telur  að miklar skatta- og gjaldskrárhækkanir á innanlandsflug á undanförnum árum leiði til þess að Flugfélag Íslands verði að draga úr umsvifum og minnka þjónustu. Ekki sé hægt að hækka fargjöld til að mæta þessum hækkunum en opinber gjöld á Flugfélag Íslands hafa hækkað úr 206 milljónum króna árið 2009 í 443 milljónir árið 2012 eða um 114%. Á sama tíma hefur farþegum fækkað um 2% og starfsmönnum félagsins fækkað þrátt fyrir aukningu í flugi til Grænlands. Þetta kom m.a. fram á árlegum skattadegi Deloitte, Viðskiptaráðs, Samtaka atvinnulífsins og viðskiptablaðs Morgunblaðsins í vikunni.

Bogi segir fáheyrt að innanlandsflug á Íslandi þurfi að borga bæði kolefnisgjald af eldsneyti og útblæstri, en um það séu fá eða engin dæmi í heiminum. Hann segir kapp best með forsjá í skattlagningu á ferðaþjónustuna  og bendir á að ferðaþjónustan hafi fengið sinn skerf af skattahækkunum frá 2008. Auknar álögur hafi bein áhrif á samkeppnishæfni ferðaþjónustu á Íslandi -  samkeppni um erlenda ferðamenn sé gríðarleg - einkum yfir vetrartímann.

Dæmi um hækkanir:

  • Tekjuskattur fyrirtækja 11% hækkun

  • Tryggingagjald á laun 45% hækkun

  • Virðisaukaskattur, hærra þrep 4% hækkun

  • Áfengisgjald á bjór 38% hækkun

  • Tóbaksgjald 42% hækkun

  • Bensíngjald 134% hækkun

Bogi sagði aðra leið færa til öflunar tekna fyrir ríkissjóð, að auka umfang með því að draga úr hækkunum á sköttum og opinberum gjöldum, stækka skattstofna og minnka atvinnuleysi.  Hann fór yfir góðan árangur Icelandair Group á undanförnum árum en stöðugildum hefur fjölgað um 430 hjá samstæðunni frá árinu 2009 eða um 20% en fjölgun aukning ferðamanna til landsins hefur haft gríðarleg áhrif inn í hagkerfið. Ferðaneysla erlendra ferðamanna á Íslandi var t.d 117 milljarðar árið 2010 og hefur aukist um 25% frá árinu 2008.

Bogi varaði sterklega við því að taka upp komugjöld á Keflavíkurflugvelli en reynsla frá öðrum löndum sýni að þau séu ávísun á fækkun ferðamanna og tekjutap ríkissjóðs.

Að lokum sagði Bogi fjölmörg tækifæri vera til staðar og þau sé hægt að nýta ef rétt verði á málum haldið. Mikilvægt sé að hugsa til lengri tíma og gera langtímaaætlanir en örar skattabreytingar og hækkun gjalda á liðnum árum hafi gert rekstur í ferðaþjónustu erfiðan ásamt því að hafa haft neikvæð áhrif á samkeppnisstöðu landsins.

Glærur Boga og annarra frummælenda má nálgast hér að neðan ásamt ítarlegri umfjöllun um fundinn á vef Viðskiptaráðs.

Tengt efni:

Umfjöllun mbl - sjónvarps

Umfjöllun fréttastofu RÚV

Umsögn SA um kolefnisgjald á innanlandsflug

Ítarleg umfjöllun um efni fundarins á vef Viðskiptaráðs

Glærur frummælenda má nálgast á vef Deloitte