Ingibjörg nýr forstöðumaður hjá SA

Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður samkeppnishæfnissviðs Samtaka atvinnulífsins. Hún tekur við starfinu af Davíð Þorlákssyni en Ingibjörg starfaði áður sem verkefnastjóri hjá SA. 

Á samkeppnishæfnissviði SA er haldið utan um verkefni sem snúa að samkeppnishæfni og starfsumhverfi íslensks atvinnulífs. Undir sviðið heyra meðal annars menntamál, umhverfismál og nýsköpun. Þá heldur sviðið utan um umsagnir um lög og reglugerðir til Alþingis. Snar þáttur í starfsemi sviðsins er að stuðla að bættu rekstrarumhverfi fyrirtækja á Íslandi og vera málsvari atvinnulífsins.

Ingibjörg hefur starfað hjá SA frá árinu 2019 en áður starfaði hún sem sviðsstjóri reksturs, mennta- og mannauðsmála Samtaka iðnaðarins. Hún var framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar, stýrði undirbúningi og opnun Menningarhússins Hofs og var framkvæmdastjóri þess frá opnun til ársloka 2014. Ingibjörg hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu og hefur setið í ýmsum stjórnum og nefndum á vegum SA. Hún er stjórnarformaður Hörpu.

Ingibjörg er með MSc-gráðu í stjórnun og stefnumótun, BSc-gráðu í viðskiptafræði auk þess sem hún er með vottun í verkefnastjórnun.