Hvers vegna ertu að vinna þarna?
Hrefna Hallgrímsdóttir, framkvæmdastjóri gæðatrygginga og fullvinnslu hjá Elkem á Íslandi flutti ávarp á Umhverfisdegi atvinnulífsins sem haldinn var fyrir skemmstu og þar sagði hún meðal annars: „Mamma mín spyr mig reglulega að því hvernig standi eiginlega á því að ég sé að vinna þarna?"
Vangaveltur móður hennar eiga sér skýringu. „Þegar ég var lítið barn og við keyrðum fram hjá iðnaðarsvæðinu þá sat ég grátandi í aftursætinu yfir því að við gætum komið svona fram við náttúruna okkar. Ég ætla að nota tækifærið hérna til að svara spurningunni hennar mömmu," sagði Hrefna.
„Ein af mörgum ástæðum þess að ég er að vinna fyrir Elkem Ísland er að ég get, með mínum störfum, haft áhrif á það hvernig við komum fram við náttúruna. Ekki bara hvað áhrif við höfum heldur hafa afurðirnar okkar jákvæð áhrif. Ein af okkar sérvörum hefur þau áhrif í rafmótorum að minnka viðnám og bætir þar með orkunýtingu. Kannski er hún í þessum nýju flugvélum sem Icelandair er að fara að kaupa. Okkar markaðshlutdeild í þessari vöru er 15% í öllum heiminum. Þetta er ástæðan fyrir því að sumar þvottavélar og ísskápar ná A++ og Teslurnar komast aðeins lengra en ella.“
Í máli hennar kom fram að Elkem er 114 ára tæknifyrirtæki og að verksmiðjan á Íslandi muni innan tíðar fagna 40 ára afmæli. Markmið Elkem Ísland og móðurfyrirtækisins er að vera alveg kolefnishlutlaus málmframleiðandi. Millimarkmið er að minnka losun um 40% fyrir 2030. Lykilatriði til þess eru orkuendurvinnsla og notkun lífræns kolefnis í framleiðsluferlinu í stað jarðefnaeldsneytis.
Minnkun losunar um 50 þúsund tonn jafngildi því að leggja 15 þúsund bílum, fella niður 500 flugferðir til og frá Kaupmannahöfn á ári eða gróðursetja 470 þúsund tré
Í upphafi losaði verksmiðjan 450 þúsund tonn af koldíoxíði á ári. Allt frá því fyrir aldamót hefur verið unnið að því að draga úr kolefnisfótspori fyrirtækisins. Elkem Ísland er einn stærsti endurvinnsluaðili úrgangs á Íslandi og nýtir úrgangstimbur frá byggingariðnaði og öðrum. Það er kurlað og notað sem hráefni í framleiðsluna. Dregið hefur úr árlegri losun um 50 þúsund tonn. Markmið er að minnka losun um önnur 50 þúsund tonn til ársins 2020. Og til þess að ná markmiðinu um 40% samdrátt fyrir 2030 þarf að minnka losunina niður í 270 þúsund tonn á ári. Hrefna sagði: „Síðan ætlum við ekki að hafa neitt fótspor í framtíðinni.“
Hrefna nefndi í erindi sínu að minnkun losunar um 50 þúsund tonn jafngildi því að leggja 15 þúsund bílum, fella niður 500 flugferðir til og frá Kaupmannahöfn á ári eða gróðursetja 470 þúsund tré og passa að þau fái að vaxa.
Fyrirtækið hefur átt farsælt samstarf við Skógrækt ríkisins undanfarin ár til þess að skógrækt geti orðið sjálfbær atvinnugrein. Hafið er samstarfsverkefni, sem næsta skref, um að gróðursetja grænan trefil umhverfis iðnaðarsvæðið á Grundartanga. Verkefnið verður í samstarfi við Landbúnaðarháskólann því skógurinn á að verða fallegur en ekki ferkantaður verkfræðingaskógur. Þetta mun breyta ásýnd svæðisins. Fyrirtækið fær aukið hráefni til vinnslunnar og auk þess nýtist skógurinn til að minnka losun Íslands í heild.
Að lokum sagði Hrefna: „Við erum á ferðalagi, við höfum markmið, við höfum sýn og við höfum fullt af lausnum. Við trúum því að þetta sé ekkert mál vegna þess að þetta er rétt.“
Hægt er að horfa á erindi Hrefnu hér að neðan í Sjónvarpi atvinnulífsins og nálgast glærur hennar.
Sjá nánar:
Glærukynning Hrefnu á Umhverfisdegi atvinnulífsins 2017 (PDF)