Hvers má vænta á komandi þingi?

Nú fer annað þing ríkisstjórnarinnar að hefjast og framundan eru mörg mikilvæg verkefni. Á sínum fyrsta vetri var ný ríkisstjórn nokkuð iðin við að koma frumvörpum í gegnum þingið, en 83 ný lög urðu til. Líkt og með margt annað þá er það þó ekki magnið sem skiptir máli heldur hvernig ákvarðanir og aðgerðir þingsins hafa áhrif á heimili og fyrirtæki í landinu.

Það er ógerningur að sjóða heilt þing niður í nokkrar málsgreinar. Frá sjónarhóli atvinnulífsins má hampa þremur málum á liðnu þingi og eiga þau það öll sameiginlegt að vera jákvæð í efnahagslegu tilliti. Fyrst ber að nefna að dómsmálaráðherra og Alþingi eiga hrós skilið fyrir skjót viðbrögð þegar vísa átti erlendum iðnnemum úr landi vegna mistaka við lagasetningu og tókst að leiðrétta það fyrir lok árs 2017. Tæplega fimmti hver starfsmaður í atvinnulífinu er erlendur og það skiptir máli að vel sé tekið á móti þeim.

Breyting á rekstrarformi Íslandsstofu var jafnframt mikilvægt skref en með breytingunni eykst tenging atvinnulífsins við Íslandsstofu og eru vonir bundnar við að unnt verði að efla hana til muna í náinni framtíð. Þá var í fjárlögum fyrir árið 2018 samþykkt hækkun á frítekjumarki vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega. Þar voru jákvæð skref stigin en með breytingunni skapast aukinn hvati til vinnu fyrir þá ellilífeyrisþega sem geta það og vilja. Eins og sjá má voru engin stór jákvæð mál kláruð á þessu þingi. Vonandi verður breyting á því á næsta þingi.

Bæta þarf samkeppnishæfni útflutningsgreina
Á undanförnum árum hafa stjórnvöld notið góðs af miklum uppgangi í hagkerfinu. Skatttekjur ríkisins hafa vaxið og skattheimta á hvern íbúa hefur aldrei verið hærri. Það voru því vonbrigði að allar skattabreytingar í fjárlagafrumvarpi ársins 2018 hafi verið til hækkunar. Á síðustu árum hefur lítil áhersla verið lögð á aðhald í ríkisrekstri eða mikilvægi þess að dregið sé úr opinberum umsvifum, sem þó eru ein þau mestu meðal ríkja OECD. Hvatinn til hagræðingar eða endurskipulagningar hefur einfaldlega ekki verið til staðar. Á meðan svo er skapast ekki rými til skattalækkana.

Ljóst er að rekstrarumhverfi margra útflutningsfyrirtækja er erfitt um þessar mundir, miklar launahækkanir, gengisstyrking krónunnar og hækkandi raungengi hafa leitt til þess að samkeppnisstaða þeirra fer hratt þverrandi. Sú staða sem nú er uppi er verulegt áhyggjuefni einkum þegar horft er til þess að á síðustu árum hefur útflutningsgreinum vaxið ásmegin og skila í dag gífurlegum verðmætum til þjóðarbúsins. Gjaldeyristekjur útflutningsgreina eru í dag ríflega 1.200 milljarða króna eða sem nemur hálfri landsframleiðslu.

Þrátt fyrir verulegan uppgang hafa gjaldeyristekjur dugað til að standa undir innlendri neyslu og stórbætt erlenda stöðu landsins í gegnum mikinn og viðvarandi viðskiptaafgang. Engin þörf hefur því verið á erlendri skuldsetningu, aldrei þessu vant, og mun efnahagsleg hagsæld Íslands áfram byggjast á vexti útflutningsgreina. Því ber að líta alvarlegum augum á þær vísbendingar sem nú koma fram og benda til þess að framundan sé viðsnúningur  á stöðu útflutningsgreina og gjaldeyristekjum þjóðarbúsins.

Í kjölfar efnahagshrunsins voru skattar hækkaðir og eru flestar skattprósentur hærri í dag en þær voru árið 2008. Ein leið til að bæta samkeppnishæfni íslenskra útflutningsfyrirtækja væri að lækka skatta og væri lækkun tryggingagjalds þar augljós kostur. Slík aðgerð myndi hjálpa fyrirtækjum að mæta miklum launakostnaði á næstu árum samfara minnkandi umsvifum í hagkerfinu. Stjórnvöld hafa í fjármálaáætlun sinni boðað lækkun tryggingagjalds um 0,25% á árinu 2019. Það er jákvætt skref en því miður of lítið m.t.t. stöðunnar á vinnumarkaði.

Þá hafa stjórnvöld jafnframt boðað tekjuskattslækkun einstaklinga í neðsta þrepi en einnig þarf að huga að öðrum aðgerðum. Þar má nefna endurskoðun á skattstofni fjármagnstekna, lækkun á tekjuskatti fyrirtækja, almennar skattalækkanir einstaklinga sem og einföldun á skattkerfinu í heild sinni. Þá þarf að endurskoða veiðigjaldið þannig að gjaldstofninn endurspegli betur afkomu greinarinnar með minni tímatöf en verið hefur. Afnema þarf hið fyrsta sérstaka skatta á tilteknar atvinnugreinar eins og gistináttagjald og bankaskatt.

Nýtum góða tíma til framþróunar
Ef hægja fer á hagkerfinu geta stjórnvöld ekki treyst á mikinn tekjuvöxt til að fjármagna aukin útgjöld ár frá ári. Samtök atvinnulífsins hvetja því stjórnvöld til að huga að samkeppnishæfni þjóðarbúsins og nýta vel tímann framundan til endurskipulagningar og hagræðingar í ríkisrekstri þannig að unnt verði að draga til baka skattahækkanir eftirhrunsáranna. Sú skattastefna sem stjórnvöld móta í fjárlögum næsta árs skiptir gríðarlega miklu máli út frá samkeppnishæfni þjóðarbúsins. Enginn tími er betri en nú til að skapa það svigrúm sem til þarf í rekstri ríkisins til að lækka skatta á fyrirtæki og heimili í landinu.