Hvergi meiri vöxtur kaupmáttar en á Íslandi

Góður gangur í hagkerfinu undanfarin ár hefur skilað sér í bættum hag  íslenskra heimila. Frá því núverandi hagvaxtarskeið hófst í árbyrjun 2011 hefur atvinnuleysi farið úr því að vera rúmlega 7,5% niður í 3%. Ráðstöfunartekjur á mann hafa vaxið um 50% á sama tíma og kaupmáttur á mann hefur vaxið um 23%. Þá er tekjujöfnuður hvergi meiri meðal OECD og hefur farið vaxandi. Heimilin hafa greitt niður skuldir og ekki mælst minni í áratugi. Gjörólík staða blasir við íslenskum heimilum í dag samanborið við síðasta hagvaxtarskeið. Þá voru ráðstöfunartekjur heimila að hluta drifnar áfram af miklum eignaverðshækkunum, hækkunum sem þurrkuðust að hluta út þegar til bakslags kom í hagkerfinu. Í dag er staðan önnur og hagkerfið stendur á traustum grunni. Verðhækkun eigna er drifin áfram af miklum kaupmætti en ekki aukinni skuldsetningu.

Eftir samfelldan vöxt kaupmáttar undanfarin ár hefur að mestu tekist að vinna upp þá kaupmáttarrýrnun sem varð eftir hrun. Á þeim 22 árum sem mælingar ná yfir kaupmátt ráðstöfunartekna hafa íslensk heimili aðeins einu sinni upplifaði meiri kaupmátt og það var á árinu 2007.

Sterk staða íslensk þjóðarbús endurspeglast í sterkum hagtölum. Kaupmáttur heimila er bæði mikill í sögulegum og alþjóðlegum samanburði. Kaupmáttur launa jókst hvergi meira í samanburði OECD-ríkja á árinu 2016.

Hvort sem horft er til meðallauna eða lágmarkslauna þá eru laun á Íslandi meðal þeirra hæstu innan OECD-ríkjanna.

Það er fagnaðarefni að hagur heimila hefur vænkast jafn mikið og raun ber vitni. Á móti er mikilvægt að hafa í huga að slíkur vöxtur er ekki sjálfgefinn. Miklar launahækkanir síðustu ára hafa skilað heimilum miklum kjarabótum. Hagstæð ytri kjör, styrking krónunnar, afnám vörugjalda og tolla hafa átt sinn þátt í því að kaupmáttur heimila brann ekki upp í verðbólgu eins og oft áður. Núverandi staða þjóðarbúsins er sterk og mikilvægt að standa vörð um þau bættu lífskjör sem náðst hafa þannig að unnt verði að byggja enn frekar upp kaupmátt heimila öllum til hagsbóta.