Hvar liggja þolmörk heimila og atvinnulífs?
Höskuldur H. Ólafsson, formaður Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF) og bankastjóri Arion banka flutti erindi á fundi SA um skattamál atvinnulífsins þann 9. nóvember. Þar velti hann fyrir sér þolmörkum heimila og atvinnulífs þegar kemur að aukinni skattheimtu. Fram kom í máli Höskuldar að aðildarfélög SFF hafi greitt um 25 milljarða króna í skatta og álögur í fyrra eða um fjórum milljörðum meira en árið 2007 þegar bankakerfið var sem stærst. Þessi aukning er að stórum hluta komin til vegna aukningar á ótekjutengdum álögum. Höskuldur sagði slíka skattheimtu vera ósanngjarnari en tekjutengda skattheimtu og óumflýjanlegt sé að hún bitni á viðskiptamönnum fjármálafyrirtækja.
Á undanförnum árum hefur skattheimta og gjaldtaka sem beinist sérstaklega að fjármálafyrirtækjum aukist verulega. Höskuldur segir lykilatriði að skattlaging hér á landi sé í samræmi við það sem gerist í samkeppnislöndum okkar, annars verði fjármálaþjónusta dýrari hér á landi. Gengið hafi verið full vasklega fram á undanförum árum í að auka álögur á fjármálafyrirtæki og álagningu nýrra skatta.
Erindi Höskuldar má lesa í heild hér að neðan
Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka.
"Skattaheimta hefur verið til í hinum ýmsu formum í árþúsundir og ég held að ég geti fullyrt að oftar en ekki hafi hún verið umdeild meðal þeirra sem skattinn þurfa að greiða. Eins og við öll vitum mætavel þá er enn í dag - og kannski nú sem aldrei fyrr - deilt um þessi mál hér á landi. Hvar liggja þolmörk heimila og atvinnulífs? Hvenær er komið nóg?
Ég ætla að velta upp nokkrum umhugsunarefnum í þessu samhengi og þá sérstaklega út frá fjármálafyrirtækjum. En á undanförnum árum hefur skattheimta og gjaldtaka sem beinist sérstaklega að fjármálafyrirtækjum aukist verulega hér á landi. Nýir skattar hafa verið innleiddir auk þess sem sérstök gjaldtaka vegna ýmissa þátta hefur margfaldast. Þessi þróun hefur verið knúin áfram af þörf til að mæta þeim kostnaði sem þjóðfélagið varð fyrir vegna fjármálahrunsins og efnahagskreppunnar sem skall á í kjölfar þess. Jafnframt er umræða bæði hér á landi og erlendis um hvernig skuli mæta þeim kostnaði sem ríkissjóðir gætu orðið fyrir vegna fjármálaáfalla í framtíðinni.
Segja má að upptaka nýrra skatta á fjármálafyrirtæki hér á landi á undanförnum árum hafi fylgt tískusveiflum í umræðum á alþjóðavettvangi - umræðu sem reyndar hefur ekki verið til lykta leidd. Þannig var skattur á skuldir fjármálafyrirtækja mikið í umræðu erlendis á árinu 2010 og til þess vitnað við lögfestingu þess skatts hér á landi. Raunin varð hins vegar sú erlendis að einungs fáein lönd hafa tekið upp þennan skatt. Þá var skattur á launagreiðslur fjármálafyrirtækja mikið ræddur á alþjóðavettvangi 2011 og meðal annars gerði framkvæmdastjórn ESB hann að tillögu sinni sumarið 2011. Ekkert varð úr þeim hugmyndum, en til þeirra og danskrar fyrirmyndar var vísað við lögfestingu fjársýsluskattsins hér á landi. Nú hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins snúið við blaðinu og hefur nýlega lagt til veltuskatt á fjármálaviðskipti eða svokallaðan financial transaction tax. Ekki er óhugsandi að hér á landi verði lagt til að hann bætist í flóru nýrra sérstakra skatta á innlenda fármálaþjónustu, svona miðað við fyrri reynslu. Yrði það raunin þá væri þar með búð innleiða hér á landi allar þær hugmyndir sem hafa verið nefndar til leiks erlendis.
Aðildarfélög Samtaka fjármálafyrirtækja greiddu 25 milljarða í skatta og opinber gjöld í fyrra eða tæpum fjórum milljörðum meira en þegar bankakerfið var sem stærst árið 2007. Frá árinu 2010 hafa verið lagðir á sérstakir skattar á fjármálakerfið sem í mörgum tilfellum hafa aðeins komið til umræðu í nágrannaríkjum okkar, en ekki til framkvæmdar. Samkvæmt áætlunum munu þessir sérstöku skattar, einir og sér, skila um 8 milljörðum í ríkissjóð. Samkvæmt fjármálafrumvarpinu stendur til að hækka þessa skatta um einn milljarð með breytingum á fjársýsluskatti.
Þá hefur gjaldtaka vegna Fjármálaeftirlits og embættis Umboðsmanns skuldara aukist verulega undanfarin ár og nemur aukningin um 1,3 milljarði króna frá árinu 2007. Einnig hefur gjaldtaka vegna innstæðutrygginga aukist til muna. Á árinu 2011 greiddu innlánsstofnanir 4,1 milljarða króna í Tryggingasjóð innstæðueigenda og fjárfesta. Á þessu ári er iðgjaldið áætlað um 3 milljarðar króna. Grunniðgjaldið hér á landi er þrisvar sinnum hærra en í öðrum löndum á Evrópska efnahagssvæðinu, eða um 1,5% af tryggðum innstæðum samanborið við 0,5% annarstaðar.
Þegar á heildina er litið þá má skipta álögum á fjármálafyrirtæki í tvennt. Annars vegar álögur sem eru tengdar tekjum og svo álögur sem eru tengdar öðrum þáttum. Tekjutengda gjaldtakan er sveiflukennd og fylgir eðli máls samkvæmt afkomu fyrirtækjanna. Á árinu 2012 er gert ráð fyrir að hún nemi um 10 milljörðum króna hjá öllum aðildarfélögum SFF. Sú skattlagning er sanngjörn í þeim skilningi að hún byggir á getu fyrirtækjanna til að greiða skattinn þó alltaf megi deila um skatthlutfallið. Sá hluti skattlagningarinnar sem ekki er tekjutengdur er hins vegar ósanngjarnari. Á þessu ári er gert ráð fyrir því að hann nemi um 14 milljörðum króna hjá félögum í SFF. Í raun felur ótekjutengd skattheimta í sér aukin kostnað við rekstur fyrirtækja. Kostnað sem hlýtur að koma fram í hærri gjöldum fyrir veitta þjónustu. Þessi gjaldtaka hefur þrefaldast frá árinu 2007 á sama tíma og fjármálakerfið hefur skroppið saman. Þannig svara eignir bankakerfisins nú tæpum 2 landsframleiðslum en svöruðu til 10 landsframleiðslum um mitt ár 2008. Þannig er kerfið aðeins einn fimmti af því sem það var fyrir hrun en gjaldtaka er þreföld í krónum talið.
Önnur leið til að skoða áhrif þessarar gjaldtöku er að setja ótekjutengdu gjöldin í hlutfall við vaxtamun fjármálafyrirtækjanna. Sem vísbendingu um vaxtamun má nota upplýsingar frá þremur stærstu bönkunum en þeir bera stærstan hluta þessara gjalda. Heildarvaxtamunur þeirra á árinu 2011 var um 87 milljarðar króna og ótekjutengdu gjöldin á árinu 2011 námu 14% af þeirri fjárhæð. Enginn vafi er á því að svo mikil skattlagning á kostnað fjármálafyrirtækjanna hlýtur að hafa áhrif á vaxtamun til hækkunar. Hjá minni fjármálafyrirtækjum sem einkum hafa tekjur á formi þóknana frá viðskiptavinum hlýtur þessi kostnaður að hafa bein áhrif á gjaldtöku þeirra.
Í þessu umhverfi er að mörgu að huga fyrir stjórnvöld. Til dæmis þarf að hafa í huga að geta fjármálafyrirtækja til að greiða þessa skatta er mismunandi. Afkoma stærri fyrirtækjanna sem hafa verið endurskipulögð fjárhagslega er ef til vill nú um mundir nokkuð sterk. Hins vegar glíma mörg smærri fyrirtæki enn við afleiðingar hrunsins og efnahagssamdráttarins í rekstri sínum. Þá eru jafnframt mörg ný fyrirtæki sem sprottið hafa upp í kjölfar hrunsins, ótengd hruninu að reyna að byggja upp starfsemi sína við erfiðar aðstæður í efnahagslífinu. Loks er áhættan sem hið opinbera hefur af starfsemi fyrirtækjanna mjög mismunandi. Erfitt er að sjá hvernig lítil fjármálafyrirtæki eða tryggingarfélög geta valdið ríkissjóði skaða sem réttlætir mikla gjaldtöku til að mæta kostnaði af fjármálahruninu 2008 eða í framtíðinni.
Það er rétt að taka skýrt fram að við sem störfum við fjármálaþjónustu erum ekki andsnúin því að greiða skatta og gjöld til þess að mæta þeirri áhættu sem fjármálastarfsemi kann að stofna skattborgurum. Hins vegar er lykilatriði að skattlagningin sé í samræmi við það sem gerist í okkar samkeppnislöndum. Annars verður fjármálaþjónusta dýrari hér á landi og hætt við að þjónusta sem áður var veitt hér á landi færist úr landi. Nú kunna sumir að segja að lítil hætta sé á slíku með núverandi gjaldeyrishöft eru við lýði. Sú er þó ekki reyndin. Þrátt fyrir höftin eru fjármálafyrirtækin í samkeppni við erlenda keppinauta. Mörg stærstu og áhugaverðustu fyrirtækjum landsins eru að hluta undanþegin höftum og geta leitað til erlendra fjármálafyrirtækja. Innlend tryggingafélög eru í beinni samkeppni við erlenda aðila, ekki síst á sviði líftrygginga.
Víða um heim er nú leitað leiða til að draga úr líkum á erfiðleikum í rekstri fjármálafyrirtækja og forða því að ríkissjóðir þurfi að mæta skuldbindingum vegna falls kerfislega mikilvægra fjármálafyrirtækja. Þegar hefur verið gripið til mikilvægra aðgerða og margt er enn á teikniborðinu. Þannig hafa eiginfjárkvaðir verið auknar og kröfur um lausafé verið felldar inn í reglur um eigið fé hjá Evrópusambandinu. Þá er í gangi ný reglusetning um innstæðutryggingakerfi innan ESB sem gera mun meiri kröfur um sjóðsmyndun til að mæta fjármálaáföllum. Ennfremur eru til umræðu takmarkanir á starfsemi fjármálafyrirtækja til að draga úr áhættu af áhættusamri starfsemi eins og boðað er í svokallaðri Liikanen skýrslu. Svo fátt eitt sé nefnt.
Meðan þessi mál gerjast er að mínu mati rétt að fara sér hægt í að móta hér á landi sérstaka skattlagningu á fjármálafyrirtæki.
Góðir áheyrendur. Eins og ég hef áður sagt þá víkja fjármálafyrirtækin sér ekki undan því að greiða skatta. En ég held að óhætt sé að segja að á undanförnum árum hafa stjórnvöld hér á landi gengið full vasklega fram þegar kemur að álögum á fjármálafyrirtæki og álganingu nýrra skatta. Í þessari nýsköpun er Ísland komið langt fram úr þeim löndum sem við berum okkur saman við. Ég tel að skynsamlegra hefði verið að bíða og sjá hverju fram vindur í þessum efnum á Evrópska efnahagssvæðinu. Í öllu falli er ljóst að alla þessa skatta þarf að endurskoða og einfalda þegar fyrir liggur hvert regluverk og fyrirkomulag skattlagningar á fjármálafyrirtækja í nágrannalöndum okkar verður."