Hvað er Seðlabankinn að kæla?

Peningastefnunefnd Seðlabankans hækkaði vexti um 0,25 prósentur nú í morgun. Ný þjóðhagsspá bankans gefur til kynna að hagvöxtur árins verði ívið meiri en áður var talið aðallega sökum aukins fjölda ferðamanna. Þá hefur atvinnuleysi dregist saman og slakinn í hagkerfinu að minnka hraðar en metið var samkvæmt bankanum. Spáin gefur einnig til kynna að verðbólgan hjaðni ögn hægar en maíspá bankans gerði ráð fyrir og að hún komist ekki í markmið fyrr en á seinni hluta næsta árs. Voru þessir þættir nefndir sem helsti rökstuðningur vaxtahækkunarinnar.

Skiptar skoðanir um nauðsyn vaxtahækkunar

Þrátt fyrir þessa þróun kom ákvörðunin nokkuð á óvart en flestir greiningaraðilar áttu von á óbreyttum vöxtum. Setja má spurningarmerki við að verið sé að grípa í taumana nú þegar ákveðið bakslag er að eiga sér stað sem snýr að sóttvörnum. Þær vendingar munu að líkindum hafa neikvæð áhrif á ferðaþjónustutengda starfsemi sem og einkaneyslu, en bættar hagvaxtarhorfur þessa árs skýrast einkum af auknum umsvifum í ferðaþjónustu samhliða vægari sóttvarnaraðgerðum á öðrum ársfjórðungi. Að auki var spáin fyrir árið 2022 færð niður og lítil breyting á horfunum fyrir þetta ár og það næsta í heild. Ef til vill hefði verið réttara að bíða með hækkun stýrivaxta þar til drægi frekar úr áhrifum þessarar óvissu.

Mikilvægt að vaxtahækkanir dragi ekki úr nauðsynlegri fjárfestingu

Verðþróun á fasteignamarkaði hefur kynt undir verðbólgu og er nú fyrst tekið að myndast misvægi milli húsnæðisverðshækkana og launahækkana að mati bankans þó ekki sé tímabært að tala um bólu á fasteignamarkaði. Hefur vaxtahækkunin því eflaust átt að slá á eftirspurn á fasteignamarkaði en áhyggjur hafa einnig verið viðraðar af dvínandi framboði íbúða miðað við núverandi stöðu nýbygginga. Gert er ráð fyrir 8% samdrætti í íbúðafjárfestingu á árinu sem er tvöfalt meiri samdráttur en gert var ráð fyrir í vor. Þá hefur spá bankans um fjárfestingu í heild fyrir árin 2021-2022 færst niður á við.

Útlán til fyrirtækja hafa ekki verið að aukast og mörg þeirra eru enn í verri skuldastöðu nú en fyrir faraldurinn. Mikilvægt er að vaxtahækkanir kæfi ekki jákvæðan viðsnúning í fjárfestingu. Þó þróunin sé að mörgu leyti jákvæð og væntingar teknar að glæðast er staðan enn viðkvæm. Það má því velta fyrir sér hvaða starfsemi Seðlabankinn sé að leitast við að kæla að svo stöddu.