Hrein og sjálfbær höf – erindi og kynningar

Samtök atvinnulífsins og UN Global Compact í Bandaríkjunum efndu til opins fundar í Húsi atvinnulífsins þann 8. ágúst um hrein og sjálfbær höf til framtíðar. Upptaka frá fundinum er nú aðgengileg á vef SA ásamt kynningum frummælenda.

Tilefni fundarins var að kynna nýlegan vettvang á vegum Sameinuðu þjóðanna sem nefnist á ensku Action Platform for Sustainable Ocean Business. Markmið hans er ekki síst að leiða saman ólíka aðila til að hanna og þróa nýja umhverfisvæna tækni og aðferðir sem geta hjálpað þjóðum heimsins að ná 17 heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um betri heim fyrir árið 2030. Hrein og heilbrigð höf er stór þáttur í því mikilvæga verkefni sem þjóðir heimsins hafa einsett sér að leysa.

Erik segir Íslendinga vera til fyrirmyndar á mörgum sviðum sem aðrar þjóðir geti lært af. Þó verði að gera betur til að ná heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna fyrir árið 2030.

Adam Gordon, framkvæmdastjóri Global Compact í Bandaríkjunum, var sérstakur gestur fundarins og kynnti hann Global Compact, sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samélagsábyrgð en Samtök atvinnulífsins eru tengiliður Íslands við sáttmálann. Hvatti hann íslensk fyrirtæki til að leggja þessu stærsta framtaki heimsins á sviði samfélagsábyrgðar lið ásamt því að skoða möguleikana á því að taka þátt í starfi vettvangsins um hrein og heilbrigð höf. Íslendingar hafi margt fram að færa í þeim efnum.

Kynning Adam Gordon (PDF)

Að loknu erindi sínu kynnti Adam til leiks Erik Giercksky framkvæmdastjóra Action Platform for Sustainable Ocean Business, en hann ávarpaði fundinn í beinni útsendingu frá New York ásamt því að taka þátt í umræðum og svara fyrirspurnum. Hann sagði Íslendinga vera til fyrirmyndar á mörgum sviðum sem aðrar þjóðir geti lært af. Þó verði að gera betur og til að ná heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um betri heim fyrir árið 2030 þurfi eftirfarandi árangur m.a. að nást:

  • Sjávarafurðir verði rekjanlegar
  • Enginn útblástur verði frá flutningum
  • Skip verði rafknúin
  • Höfin verði plastlaus
  • Og úthöfin kortlögð

Þá ítrekaði Erik mikilvægi atvinnulífsins í þeirri vegferð að heimsmarkmiðin náist og forsenda þess væri náin samvinna fyrirtækja, stjórnvalda og háskólasamfélags.

Kynning Erik Giercksky (PDF)

Kristján Þórarinsson, stofnvistfræðingur, hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, stýrði fundinum og ræddi um árangur Íslendinga á undanförnum áratugum með sjálfbærri nýtingu sjávarauðlinda og ábyrgri fiskveiðistjórnun. Með sjálfbærri nýtingu og hóflegu veiðiálagi hafi stofnar byggst upp og stækkað og verðmætasköpun fyrirtækja aukist til hagsbóta fyrir alla, samfélagið, atvinnulífið og ekki síst umhverfið. Þá hafi fiskiskipum fækkað umtalsvert á sama tíma og olíunotkun þeirra hafi dregist hratt saman.

Þegar fiskistofnar stækka batna aflabrögðin, t.d. mælt sem afli á klukkustund við veiðar, og þar með minnkar orkunotkun og útblástur á hvert kíló af veiddum afla. Útblástur vegna eldsneytisnotkunar í sjávarútvegi hafi því minnkað stórlega og muni halda áfram að gera það til ársins 2030. Þá hafi markverður árangur náðst í umhverfismálum í íslenskum sjávarútvegi, t.d. með endurnýtingu veiðarfæra og innan greinarinnar eigi sér stað umfangsmikil nýsköpun og tækniþróun sem miði að því að gera hlutina betur dag frá degi.

Því miður varð tæknibilun í upptöku á erindi Kristjáns og því er ekki hægt að birta það hér á vef SA en kynning hans fylgir hér að neðan.

Kynning Kristjáns Þórarinssonar (PDF)

Samtök atvinnulífsins þakka þeim fjölmörgu sem tóku þátt í fundinum. Nánari upplýsingar um Action Platform for Sustainable Ocean Business er að finna á vef UN Global Compact.

Upplýsingar um Global Compact á Íslandi er að finna á vef SA.