Hollráð um heilbrigða samkeppni - 2. útgáfa

Uppfærð útgáfa af Hollráðum um heilbrigða samkeppni hefur nú litið dagsins ljós í kjölfarið á breytingum sem gerðar voru á samkeppnislögum sumarið 2020. Lutu breytingarnar einkum að viðmiðunarmörkum um tilkynningarskyldu samruna, tímafresti vegna rannsóknar samrunamála og nýju fyrirkomulagi um mat fyrirtækja á því hvort samstarf milli þeirra samrýmist ákvæðum samkeppnislaga. Í þessari 2. útgáfu Hollráða um heilbrigða samkeppni hefur tillit verið tekið til framangreindra breytinga og þau aðlöguð að þeim.

Hollráð um heilbrigða samkeppni voru fyrst gefnar út vorið 2018 með það að markmiði að auðvelda starfsmönnum og stjórnendum fyrirtækja að glöggva sig á þeim reglum sem gilda um fyrirtæki og varða samkeppni. Markmið samkeppnislaga er að tryggja virka samkeppni í viðskiptum og efla þannig nýsköpun, frumkvæði, framleiðslu og þjónustu á sem lægstu verði. Útgefendur leiðbeininga í samkeppnisrétti eru Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins og Lögmannafélag Íslands. 

Útgáfa 2: Hollráð um heilbrigða samkeppni - Leiðbeiningar til fyrirtækja

Að uppfærslunni komu Helga Melkorka Óttarsdóttir, lögmaður, Agla Eir Vilhjálmsdóttir, lögfræðingur Viðskiptaráðs Íslands og Heiðrún Björk Gísladóttir, lögmaður og verkefnastjóri á samkeppnishæfnisviði Samtaka atvinnulífsins.