Höldum haus þó gangurinn sé góður

Árið 2016 var ákaflega gott ár í efnahagslegu tilliti. Hagvöxtur var áfram mikill og samsetning hans heilbrigðismerki þar sem megindrifkraftar á fyrstu þremur fjórðungum ársins voru fjárfesting og útflutningur. Þrátt fyrir verulegar launahækkanir var verðlag áfram stöðugt og hélst verðbólgan undir markmiði Seðlabankans út árið. Brúnin lyftist einnig heldur betur á landsmönnum og hefur sýn Íslendinga á efnahag landsins ekki mælst bjartari frá ársbyrjun 2007. Skyldi engan undra að landsmenn séu brattir en kaupmáttur þeirra óx um 10% á árinu og hefur viðlíka vöxtur ekki sést frá upphafi mælinga. Þessar auknu tekjur hafa fyrirtæki og heimili nýtt til að grynnka á skuldum sínum og á það sama við um ríkissjóðs sem góðs hefur notið af uppgangi í efnahagslífinu. Er það vel og sérstaklega jákvætt að sjá hversu vel hefur gengið að greiða niður erlendar skuldir þjóðarbúsins. Er svo komið að hrein erlend eignastaða er jákvæð, með öðrum orðum eigum við Íslendingar meira af erlendum eignum en við skuldum.

Ytri skilyrði voru þjóðarbúinu verulega hagstæð á nýliðnu ári, olíuverð  og hrávörur lækkuðu í verði og á sama tíma hækkaði verð sjávarafurða. Að mati Seðlabankans hafa viðskiptakjör Íslands ekki verið betri síðan á áttunda áratug síðustu aldar en þessi mikli viðskiptakjarabati endurspeglast í aukinni hagsæld umfram það sem hagvöxturinn einn gefur tilefni til. Þá hefur tilkoma ferðaþjónustunnar sem nýrrar stoðar í gjaldeyrissköpun átt stóran þátt í því að enn er töluverður viðskiptaafgangur þrátt fyrir mikla styrkingu krónunnar og það að við erum komin inn á sjötta ár núverandi hagvaxtarskeiðs.

undefined

Kunnugleg hættumerki
Íslendingar þekkja það þjóða best að velgengni getur verið fallvölt. Mikilvægt er að nýta góða tíma til þess að byggja undir þá sem verri verða og haga seglum þannig að þau slitni ekki og eyðileggist við breytta vindátt. Þó efnahagsleg staða gefi vissulega tilefni til bjartsýni er mikilvægt að gefa aðvörunarljósum gaum og varna því að góð staða glutrist niður. Hættumerki eru nefnilega til staðar og blasa við hverjum þeim sem þau vill sjá.

1) Aðhaldsleysi einkennir opinber fjármál og fjárlög ársins 2017 eru ekki tilefni mikillar bjartsýni þeirra sem vilja aðhaldssaman ríkisrekstur. Ríkisútgjöld vaxa hraðar nú en á síðasta hagvaxtarskeiði og ríkissjóður er nú mun skuldsettari[1].  Þrátt fyrir hallalausan ríkissjóð undanfarin ár hefur afkoma hins opinbera verið neikvæð og gera áætlanir ráð fyrir hverfandi afkomu á næstu árum þrátt fyrir mikinn uppgang íslensku þjóðarbúi.

2) Launahækkanir á Íslandi árið 2016 voru að jafnaði þrefalt meiri en á hinum Norðurlöndunum. Slík stefna hefur fyrir lifandis löngu verið aflögð í þeim ríkjum þar sem að hún skilar fremur verðbólgu en kaupmætti. Verulegur bati á viðskiptakjörum skapaði hins vegar svigrúm hjá íslenskum fyrirtækjum til að mæta slíkum hækkunum. Á viðskiptakjörunum höfum við hins vegar litla stjórn og vorum því heppin á árinu. Það er alls óvíst að svo verði áfram. Er það því áhyggjuefni að þrátt fyrir að kaupmáttur Íslendinga sé ekki aðeins mikill í krónum heldur einnig í erlendri mynt þá ríki ófriður á vinnumarkaði. Sem dæmi má nefna að frá árinu 2013 hafa laun hér á landi mæld í evrum hækkað um 40% meira en í Danmörku og er munurinn enn meiri í samanburði við hin Norðurlöndin. Þá er tekjujöfnuður hvergi meiri meðal ríkja OECD en á Íslandi.

3) Raungengi krónunnar fetar nú kunnuglegar slóðir og nálgast persónulegt met sitt frá árinu 2007. Læst inni í höftum styrktist íslenska krónan um 20% á árinu 2016, langt umfram björtustu spár. Framan af ári mátti sjá aukinn áhuga erlendra fjárfesta til að njóta innlendra vaxta en Seðlabankinn brást að lokum við vaxtamunarviðskiptunum með nýjum innflæðishöftum. Þrátt fyrir það hélt krónan áfram að styrkjast en gengisstyrking krónunnar sem og verulegar launahækkanir hafa þrengt verulega að íslenskum útflutningsfyrirtækjum.

Við hverju má búast af árinu 2017?
Sem fyrr segir er bjartsýnin mikil. Greiningaraðilar virðast flestir sammála um áframhaldandi hagvöxt, verðbólgu undir markmiðið, vaxandi kaupmátt og afgang af viðskiptum við útlönd. Árið 2017 hefur því margt með sér og fátt sem bendir til annars en að árið verði gæfuríkt. Slík staða færir þó síst minni ábyrgð á herðar þeirra sem hér fara með völdin. Ábyrgðarhluti er að gefa hættumerkjum gaum og búa svo um hnútana á árinu 2017 að næstu ár hefjist á enn styrkari stoðum. Verkefni ársins er að ráðast að rótum þeirra kerfislegu vandamála sem enn eru að valda okkur búsifjum.

Losa um höft hið fyrsta
Það er í raun ekkert sem afsakar það að enn séu höft á Íslandi og er vart er hægt að upphugsa betri aðstæður til að losa þau. Efnahagshorfur eru góðar, bankakerfið stendur styrkum fótum, skuldastaða þjóðarbúsins hefur stórbatnað, ávöxtun erlendis er í sögulegu lágmarki og gjaldeyrisforðinn er rúmur. Vissulega hefur eitthvað þokast í haftalosun en miðað við mikilvægi hennar og skaðann sem höftin valda þá gerist hún í alltof smáum og hægfara skrefum. Algjörlega fráleitt er að enn séu fjárfestingar innlendra og erlendra aðila háðar staðfestingu Seðlabankans eða lúti fjárhæðartakmörkunum, svo dæmi séu tekin. Þá var eins og áður sagði nýjum höftum bætt við á árinu 2016, innflæðishöftum, vegna aukinnar ásóknar erlendra aðila í innlenda vexti. Við megum ekki gleyma því að höft, sama í hvaða formi, brengla verðmyndun á gjaldeyrismarkaði og öðrum eignamörkuðum, þau draga úr fjárfestingu og nýsköpun og ýta undir efnahagslegt ójafnvægi.

Lærum af fyrri mistökum okkar og annarra
Svíar gengu í gegnum efnahagsþrengingar árið 1990 ekki ósvipuðum þeim sem Íslendingar hafa margoft kynnst og síðast árið 2008. Hafa þær fylgt svipaðri línu, yfirspennt hagkerfi með ósjálfbærri kaupmáttaraukningu og styrkingu krónunnar sem skilar að lokum efnahagssamdrætti og gengisfalli. Ólíkt okkur Íslendingum lærðu Svíar af sinni reynslu fyrir 27 árum síðan. Áttuðu þeir sig á því að launhækkanir úr öllu samræmi við undirliggjandi hagstærðir skiluðu á endanum minni kaupmætti og létu þær framvegis fylgja framleiðniaukningu í hagkerfinu. Sameiginlegur skilningur að þensluáhrifum aðhaldslausra ríkisfjármála urðu til þess að settar voru reglur um opinber fjármál og breið samstaða myndaðist við að halda aftur af útgjaldaukningu, ekki síst á þenslutímum. Frá árinu 1991 hafa launahækkanir í Svíþjóð mælst í kringum 2% og yfir sama tímabil hafa útgjöld hins opinbera vaxið að meðaltali um ríflega 3,5%. Þessi breyttu vinnubrögð hafa skilað Svíum auknum efnahagslegum stöðugleika og með því staðið er vörð um samkeppnisstöðu þjóðarbúsins. Almenningur hefur notið þess með stöðugri kaupmáttaraukningu og mun lægra vaxtastigi.

Íslendingar eru í öfundsverðri stöðu. Á sama tíma og mörg ríki í Evrópu glíma enn við mikla efnahagslega erfiðleika þá ríkir hér sjaldséður stöðugleiki, hagvaxtarhorfur eru góðar og kaupmáttur mikill. Við getum alltaf gert betur en sé ætlunin að byggja upp til lengri tíma þá þarf hugsunin að ná þangað líka. Það er að miklu leyti í okkar höndum hvernig til tekst á árinu 2017 en aðgerðir okkar nú skipta ekki síður máli fyrir árin sem á eftir koma.

undefined

 

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA.

Greinin birtist í Vísbendingu 9. janúar 2017.

 

[1] Núverandi hagvaxtarskeið miðað við árin 2011-2017 og síðasta hagvaxtarskeið 2003-2007.