Hlutafélag um rekstur Stýrimanna- og Vélskóla?

LÍÚ og Samtök kaupskipaútgerða hafa lýst áhuga á því við stjórnvöld að stofnað verði hlutafélag um rekstur Stýrimannaskólans í Reykjavík og Vélskóla Íslands, sem tæki að sér rekstur skólanna á svipuðum grunni og Verslunarskóli Íslands er rekinn. Í ræðu Kristjáns Ragnarssonar, formanns LÍÚ, á aðalfundi samtakanna kom fram að menntunarmál hefðu verið til umræðu að undanförnu vegna takmarkaðrar aðsóknar að Stýrimannaskólanum og Vélskólanum. Kristján sagði fátt einni atvinnugrein mikilvægara en að eiga kost á vel menntuðum starfsmönnum og að af þessu tilefni hefði stjórn samtakanna ákveðið að leggja nokkra fjármuni í stofnun slíks hlutafélags, enda tækjust samningar þar um við stjórnvöld. Sjá ræðu Kristjáns á heimasíðu LÍÚ.