HÍ nýr samstarfsaðili Hvatningarverðlauna jafnréttismála
Háskóli Íslands hefur bæst í hóp samstarfsaðila Hvatningarverðlauna jafnréttismála. Samtök atvinnulífsins, landsnefnd UN Women, Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja og Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið komu á fót verðlaununum árið 2014 til að vekja jákvæða athygli á fyrirtækjum sem stuðlað hafa að jafnrétti á markvissan hátt innan sinna fyrirtækja og jafnframt að hvetja önnur fyrirtæki til að gera slíkt hið sama. Verðlaunin eru afhent árlega þeim fyrirtækjum sem þykja skara fram úr í jafnréttismálum og hlaut Vodafone verðlaunin í fyrra. Hægt er að senda inn tilnefningar í tölvupósti á netfangið verdlaun@sa.is til 10. nóvember næstkomandi.
„Það er mér sönn ánægja að Háskóli Íslands sé hluti af þessu samstarfsverkefni. Sameinast þar rík áhersla háskólans á jafnréttismál svo og samvinna við samfélag og atvinnulífið. Það er því mjög í takt við stefnu skólans að koma að slíku verkefni sem stuðlað getur að aukinni áherslu á jafnréttismál í íslensku atvinnulífi,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
Hvatningaverðlaun jafnréttismála verða afhent í fimmta sinn á opnum fundi um jafnréttismál sem ber yfirskriftina, „Metoo! - og hvað svo!“ og fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands 19. nóvember kl. 8.30-10. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra mun afhenda verðlaunin. Á fundinum munu framsögumenn ræða um áhrif Metoo! byltingarinnar á vinnustaði hér á landi. Rektor Háskóla Íslands mun stýra fundi.
Nánar um Hvatningarverðlaun jafnréttismála:
Leitað er eftir tilnefningum fyrirtækja sem leggja áherslu á neðangreinda þætti í sinni starfsemi:
- Tekið er mið af jafnréttismálum í allri stefnumótun fyrirtækisins.
- Jafnrétti kynjanna er í hávegum haft í innri og ytri samskiptum fyrirtækisins.
- Jöfn hlutföll kynjanna í stjórn, stjórnendastöðum og öðrum almennum stöðum.
- Auknum möguleikum beggja kynja til starfsframa.
- Jöfnum launum kynjanna.
- Aukinni vitund um þann ávinning sem jafnrétti hefur fyrir fyrirtækið og samfélagið.
Sérstaklega er leitað að fyrirtækjum sem uppfylla eftirfarandi skilyrði:
- Stefna fyrirtækis í jafnréttismálum hefur skýran tilgang og markmið.
- Jafnrétti hefur fest rætur og sýnt er fram á varanleika.
- Vakin er athygli á rekstrarlegum ávinningi af jafnrétti.
- Jafnréttissýnin er hvetjandi fyrir önnur fyrirtæki.
- Sýnt frumkvæði og nýsköpun sem stuðlar að auknu jafnrétti kynjanna.
Á meðfylgjandi mynd eru Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins og Erla Tryggvadóttir, framkvæmdastjóri Festu.