Hestlaus hestur

Gárungarnir segja að tímarnir breytist, en mennirnir ekki. Þegar bílar voru að ryðja sér til rúms var bíll hannaður sem leit út eins og hestur með vagni og var nefndur Horsey Horseless. Hesthaus var að framan til að fólki og hestum myndi síður bregða þegar þau mættu honum. Hausinn var holur að innan og nýttist einnig sem eldsneytisgeymir. Sem mjög hvumpnum manni finnst mér líklegt að mér hefði brugðið talsvert meira við að sjá hest á hjólum koma aðvífandi en til dæmis Ford Model T.

Tímarnir eru svo sannarlega að breytast hratt og öll þurfa að hafa sig við að breytast með. Skólahald raskaðist í vetur og ljóst að það verður víða ekki með eðlilegum hætti í haust. Við búum þó svo vel að öll tækni er til staðar þegar kemur að rafrænni kennslu. Við eigum skólafólk og skóla sem eru þar í fremstu röð.

Fyrir sum er þetta erfitt. Þau virðast halda að rafræn kennsla sé að streyma kennslu úr skólastofunni á vefinn. Því fer fjarri. Möguleikarnir og tæknin eru miklu betri og bjóða upp á miklu meiri möguleika. Í raun þarf að hugsa kennsluna upp á nýtt. Ekki að breyta heyknúnum hesti í vélknúinn hest, heldur að hanna nýtt tæki frá grunni.

Horsey Horseless var af tímaritinu Time valinn einn af verstu bílum sögunnar og er þó úr mörgum að velja. Við höfum allt sem þarf til að kennsla á Íslandi verði á lista meðal þeirrar bestu. Eina sem þarf er vilji til breytinga.

Davíð Þorláksson, forstöðumaður samkeppnishæfnisviðs SA. Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.